Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fös 24. júní 2011 00:32
Fótbolti.net
Umfjöllun: BÍ/Bolungarvík kláraði Íslandsmeistarana
Gunnlaugur Jónasson skrifar frá Ísafirði
Fögnuður á Ísafirði í kvöld.
Fögnuður á Ísafirði í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Ívar Atli Sigurjónsson
Andri Rúnar Bjarnason með boltann.
Andri Rúnar Bjarnason með boltann.
Mynd: Fótbolti.net - Ívar Atli Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Ívar Atli Sigurjónsson
BÍ/Bolungarvík 4 - 1 Breiðablik
0-1 Arnór Sveinn Aðalsteinsson (’27)
1-1 Tomi Ameobi (’72)
2-1 Sölvi Gylfason (‘106)
3-1 Andri Rúnar Bjarnason (‘114)
4-1 Sölvi Gylfason (‘120)

Gríðarleg stemmning hafði myndast á stór Ísafjarðar- og Bolungarvíkursvæðinu fyrir leiknum í kvöld enda ekki á hverjum degi sem Íslandsmeistaranir koma í heimsókn. Veðrið var eins og best verður á kosið og Áhorfendur gátu gætt sér á grillmat fyir og á meðan leik stóð. Tímabær stofnun á stuðningsmannakvöld fór fram fyrr um daginn og hlaut hann nafnið blár og marinn, í takt við baráttuna sem einkennir 1.deildina.

Uppstilling heimamanna, með 5 manna varnarlínu, gaf til kynna að þeir ætluðu að liggja til baka og reyna sækja eitthvað úr þessum leik með sterkri vörn. Blikar stilltu upp sínu sterkasta liði þar á meðal Danmerkurförunum tveimur Elfari Frey Helgasyni og Bolvíkingnum Guðmundi Kristjánssyni sem var að spila á sínum heimaslóðum.

Frá fyrstu mínútu stjórnuðu leikmenn Breiðabliks hraða leiksins og létu boltann ganga sín á milli löngum stundum. Þrátt fyrir að hafa boltann megnið af tímanum gekk þeim illa að skapa sér afgerandi færi.

Eftir 27.mínútna leik fengu gestirnir þó hornspyrnu. Boltinn var skallaður frá en fyrir utan teiginn lúrði Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Vinstri bakvörðurinn sveiflaði hægri fætinum og smellhitti boltann á lofti sem söng í vinstra horninu alveg út við stöng. Stórglæsilegt mark.

Fljótlega eftir markið fengu heimamenn aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi sínum. Boltinn fer beint á vel bónaðan kollinn á Zoran Stamenic og í netið. Ingvar Þór Kale lá þó óvígur eftir og aukaspyrna dæmd. Fljótt á litið virtist hann aðeins hafa lent illa en eins og venjan er þegar markmenn liggja inn í markteig var aukaspyrna dæmd. Meiðsli Ingvars voru þó það alvarleg að hann þurfti að fara af velli og inn á kom Sigmar Ingi Sigurðarson

Rétt undir lok fyrri hálfleiks fengu BÍ/Bolungarvík hornspyrnu. Boltinn flaug yfir alla og lenti beint fyrir framan fæturna á Zoran sem á ótrúlegan hátt skóflaði boltanum yfir fyrir opnu marki. Staðan því 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur þróaðist nákvæmlega eins og sá fyrri. Breiðablik hélt boltanum og lét hann ganga manna á milli en gríðarlegur varnarmúr heimamanna var þéttur fyrir og myndaði engar glufur. Stuðningsmennirnir í Blár og marinn voru þó engan veginn á þeim buxunum að gefast upp og héldu áfram að syngja sig hása.

Eftir tæplega hálftíma leik fengu Vestfirðingar hornspyrnu. Boltinn barst eftir það út fyrir teiginn þar sem Zoran Stamenic vippaði honum aftur inn í boxið. Þar stökk Atli Guðjónsson manna hæst og skallaði hann fyrir fæturna á Tomi Ameobi sem afgreiddi hann með tánni framhjá Sigmari i markinu.

Þegar fimm mínútur voru eftir fengu Blikarnir gullið tækifæri til að klára leikinn. Olgeir Sigurgeirsson hafði verið mjög sprækur eftir að hafa komið inn á fyrir Kristinn Steindórsson um miðjan seinni hálfleikinn. Hann skallaði boltann þá yfir úr dauðafæri eftir fyrirgjöf af hægri kantinum. Stuttu eftir það flautaði Þórður Már Gylfason góður dómari þessa leiks til loka venjulegs leiktíma.

Í byrjun framlengingarinnar fékk Olgeir aftur gott tækifæri þegar hann slapp innfyrir vörn heimamann en Þórður Ingason varði vel í markinu. Sölvi Gylfason komst einnig einn í gegn hinum megin á vellinu nokkrum mínútum seinna en mistókst að vippa yfir Sigmar. Hann átti þó eftir að bæta upp fyrir klúðrið seinna.

Á 106.mínútu fengu heimamenn horn sem ekkert varð úr en boltinn barst fyrir fæturna á Sölva sem afgreiddi hann í netið með góðu skoti. Fimm mínútum seinna fékk Olgeir enn og aftur tækifæri til að skora en Þórður Ingason kastaði sér fyrir skot hans og varði glæsilega.

Tveim mínútum seinna fengu BÍ/Bolungarvík innkast út við hægra hornið. Hafþór Atli Agnarsson kastaði boltanum í fæturna á Tomi Ameobi sem snéri með varnarmann í bakinu og sendi hann fyrir á Andra Rúnar Bjarnason sem skoraði örugglega.

Á lokamínútu leiksins fengu heimamenn skyndisókn eftir að Blikar hrúguðu leikmönnum fram. Inni í vítateig gestanna áttust þeir fyrirliðarnir við Gunnar Már Elíasson og Kári Ársælsson. Gunnar hafði betur og lagði boltann út í teig þar sem títt nefndur Sölvi Gylfason kom á ferðinni og hamraði hann í slánna og inn. Blikar tóku miðju og samstundis var flautað til leiksloka í þessum ótrúlega leik.

Segja má að þetta hafi verið taktískur sigur heimamanna. Herbragð þeirra að liggja til baka og leyfa Breiðablik að stjórna leiknum heppnaðist fullkomlega því þeir sköpuðu sér afar fá færi. Þegar í framlengingu kom voru heimamenn talsvert sprækari og eru greinilega í gríðarlega góðu líkamlegu formi því ekki er þetta í fyrsta sinn sem þeir vinna leik með góðum endaspretti.

Hjá gestunum væri einna helst hægt að minnast á frammistöðu Kristins Steindórssonar sem var þeirra lang hættulegastir maður þangað til honum var skipt útaf. Skipting sem Ólafur Kristjánsson sér kannski eftir í dag. Hjá heimamönnum voru það miðverðirnir Atli Guðjónsson og Zoran Stamenic sem stóðu upp úr af mörgum góðum. Þeir voru eins og kóngar í ríki sínu og afar fátt komst í gegnum þá. Einnig verður að minnast á frammistöðu varamannanna Andra Rúnars Bjarnasonar og Sölva Gylfasonar.
banner
banner
banner
banner