David Moyes, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, er sannkallaður Íslandsvinur en hann hefur oft komið hingað til lands í gegnum tíðina. David er staddur á Íslandi í dag en hann er með fyrirlestra á ráðstefnunni í Hörpu. Hann tekur einnig til máls á sérstöku EM kvöldi í Hörpu í kvöld.
Moyes kom fyrst til Íslands ungur að árum en hann bjó þá í Vestmanneyjum í nokkrar vikur.
„Ég þjálfaði aðeins þar. Þetta var þegar ég var 15 eða 16 ára svo ég var bara ungur strákur. Ég fékk tækifæri til að þjálfa unga krakka. Ég naut þess að vera í Vestmannaeyjum. Þetta var ekki langt á eftir eldgosinu og þetta var áhugavert," sagði Moyes sem átti langan feril sem leikmaður. Hann spilaði þó ekki fótbolta í Eyjum.
„Ég var of ungur og var ekki tilbúinn í að spila í meistaraflokki. Á þessum tíma gastu ekki gengið til liðs við félag á auðveldan hátt. Þú þurftir að vera skráður í liðið. Ég var í unglingaliði Celtic á þessum tíma svo ég gat ekki spilað."
Alltaf fylgst með Íslendingum
David hefur í gegnum tíðina kynnst mörgum Íslendingum, bæði þegar hann var leikmaður og stjóri.
„Ég hef alltaf fylgst með íslenskum leikmönnum í gegnum tíðina. Ég hef þekkt marga íslenska leikmenn sem hafa komið til Englands og Skotlands. Ég hef alltaf haft auga með íslenskum leikmönnum."
„Ég hef eignast góðan vini eins og Bjarka og Arnar (Gunnlaugssyni). Ég fékk Bjarka til Preston þegar ég var stjóri þar. Guðmundur Torfason er einn af fyrstu Íslendingunum sem ég kynntist, eftir að hann kom til St Mirren. Jóhannes Eðvaldsson var liklega sá fyrsti sem ég kynntist þegar hann kom til Celtic."
Átti ekki nógu mikla peninga til að fá Eið
Þegar Moyes stýrði Everton um áraraðir var Eiður Smári Guðjohnsen á meðal andstæðinga hans.
„Eiður Guðjohnsen hefur verið frábær leikmaður á ferli sínum. Hann er að verða eldri og nálgast lok ferilsins. Hann hefur staðið sig frábærlega. Hann var góður leikmaður hjá Chelsea og Bolton," sagði Moyes en reyndi hann einhverntímann að kaupa Eið til Everton?
„Ég átti aldrei nógu mikla peninga til að fá hann," sagði Moyes og hló. „Við hrifumst alltaf af honum en ég held að við höfum ekki reynt að fá hann."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir