mið 03. janúar 2018 13:38
Elvar Geir Magnússon
Sonur David Silva fæddist langt fyrir tímann - Berst fyrir lífi sínu
David Silva er af mörgum talinn mikilvægasti leikmaður Manchester City.
David Silva er af mörgum talinn mikilvægasti leikmaður Manchester City.
Mynd: Getty Images
Mynd: Twitter
Hinn magnaði Spánverji David Silva sneri aftur í lið Manchester City í gær og átti frábæran leik í 3-1 sigri gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni.

Silva hafði misst af leikjunum á undan en ástæðan er ekki meiðsli heldur persónuleg vandamál. Silva hefur nú stigið fram og greint frá því á Twitter að sonur sinn hafi fæðst langt fyrir tímann og sé að berjast fyrir lífi sínu.

Silva fór út til Spánar til að vera hjá nýfæddum syninum og kærustu sinni, Yessica Suarez Gonzalez, og er á leiðinni aftur út.

„Fjölskyldan er það mikilvægasta," segir Pep Guardiola, stjóri Manchester City.

„Það er augljóst hvað David gerir mikið fyrir okkur en ég veit ekki hversu lengi hann mun verða hérna. Honum er frjálst að fara heim aftur ef hann þarf að gera það. Það skiptir ekki máli þó við fáum ekki stig meðan hann er í burtu. Fjölskyldan er mikilvægust."

Hér að neðan má sjá Twitter færsluna frá David Silva en þar þakkar hann Manchester City fyrir að sýna skilning á aðstæðum sínum.

Silva, sem er 31 árs, er af mörgum talinn mikilvægasti leikmaður City en hann er klárlega leiðtogi inni á vellinum og framkvæmir hluti sem aðrir leyfa sér bara að ímynda sér.

Silva átti stóran þátt í tveimur fyrstu mörkum Manchester City í 3-1 sigrinum gegn Watford en þeir ljósbláu eru komnir með fimmtán stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni.


Athugasemdir
banner
banner
banner