Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 24. október 2018 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Emil hjálpaði Jorginho mikið - Gaf honum netpunginn sinn
Jorginho er einn besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar.
Jorginho er einn besti miðjumaður ensku úrvalsdeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Emil og Jorginho í baráttunni. Þessi mynd er tekin eftir að Jorginho gekk í raðir Napoli.
Emil og Jorginho í baráttunni. Þessi mynd er tekin eftir að Jorginho gekk í raðir Napoli.
Mynd: Getty Images
Jorginho í leik gegn Manchester United um síðustu helgi. Hér eltir hann Juan Mata.
Jorginho í leik gegn Manchester United um síðustu helgi. Hér eltir hann Juan Mata.
Mynd: Getty Images
Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í fótbolta, er nýjasti viðmælandinn í hlaðvarpinu hjá samfélagsmiðlastjörnunni og ljósmyndaranum Snorra Björnssyni.

Í hlaðvarpinu ræðir Snorri við þjóðþekkta Íslendinga um allt milli himins og jarðar.

Í þessu tæplega tveggja klukkutíma viðtali við Emil er meðal annars rætt um ítalska miðjumanninn Jorginho og samband Emils við hann. Sú umræða er mjög athyglisverð. Emil og Jorginho eru góðir félagar en þegar Jorginho var að byrja í aðalliði Hellas Verona á Ítalíu, þá tók Emil hann að sér.

Jorginho yfirgaf heimaland sitt, Brasilíu, 15 ára gamall til að elta drauminn, að verða atvinnumaður í fótbolta. Hann fór til Hellas Verona árið 2007. Hann var í unglingaliðunum auk þess sem hann fór á láni í neðri deildirnar áður en hann var fenginn upp í aðallið Hellas Verona.

Emil var í aðalliðinu hjá Hellas þegar Jorginho kom þar upp en Emil tók miðjumanninn undir sinn verndarvæng.

„Ég tók hann að mér í byrjun," sagði Emil. „Hann kemur til Verona 15 ára og er með 20 evrur á viku (2.750 íslenskar krónur) og býr hjá einhverri fjölskyldu. Þetta er ekki alltaf djók. Mér fannst erfitt að fara tvítugur, hann fer 15 ára frá Brasilíu til Ítalíu."

„Ég kynnist honum þegar hann er 18 ára, hann var byrjaður að æfa með aðalliðinu og mér fannst hann drullugóður. Hann var góður gaur og ég sá hvað hann hafði mikinn metnað. Ég byrjaði aðeins að hjálpa honum."

„Ég man þegar ég bauð honum í fyrsta sinn heim til mín. Hann átti ekki pening fyrir interneti þannig að ég gaf honum netpunginn minn. Þannig gat hann verið á netinu og talað við fjölskyldu sína í Brasilíu. Ég man ekki hvort ég hafi gefið honum einhvern pening líka."

„Þetta er ekki allltaf þannig að þú atvinnumaður og þú færð fullt af peningum og 'the rest is history'."

Bað þjálfarann að gefa Jorginho séns
Emil átti í góðu sambandi við þjálfara Verona á þessu tíma og hann gaf Jorginho góð meðmæli. Emil og Jorginho eru enn í dag góðir félagar en Jorginho kom hingað til lands fyrir nokkrum árum.

„Ég man að hann fékk ekki sénsinn og ég átti voðalega gott samband við þjálfarinn í Verona. Hann bjó sama húsi ég. Hann kallaði stundum í mig og vildi fá álit hvernig hann ætti að stilla liðinu og svona. Við áttum voða gott samband. Ég sagði við hann að Jorginho ætti að spila, hann væri hrikalega góður. Á endanum gaf hann honum sénsinn."

„Hann var púaður í fyrstu tveimur eða þremur leikjunum, hann var ekki nægilega góður. 'The rest is history'."

Jorginho átti í kjölfarið eftir að slá í gegn hjá Hellas Verona. Hann var keyptur til Napoli og er í dag hjá Chelsea, þar sem hann fær ágætlega borgað. Hann var keyptur til Chelsea fyrir meira en 50 milljónir punda en hann fylgdi knattspyrnustjóranum Maurizio Sarri þangað.

Jorginho hefur verið að standa sig vel í upphafi ensku úrvalsdeildarinnar, hann stjórnar spilinu hjá Chelsea og er algjör lykilmaður í leikaðferð Sarri.

Hann kom hingað til lands fyrir nokkrum árum ásamt eiginkonu sinni og fór með Emil hringinn í kringum landið. „Það var ótrúlega gaman. Ég er í góðu sambandi við hann, þetta er toppnáungi. Hann á allt skilið sem er búið að gerast fyrir hann."

Hér að neðan má hlusta/horfa á þáttinn en Emil byrjar að ræða um Jorginho eftir tæplega 59 mínútur.

Sjá einnig:
Myndband: Móðir Jorginho grét í verslun Chelsea


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner