mið 07. nóvember 2018 23:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sterling biður dómarann afsökunar
Mynd: Getty Images
Manchester City valtaði yfir Shakhtar Dontesk í Meistaradeildinni í kvöld. Lokatölur á Etihad-vellinum í Manchester voru 6-0 fyrir City.

Í stöðunni 1-0 fékk City-liðið samt býsna ódýra vítaspyrnu, hlægilega í rauninni.

Raheem Sterling féll þá í teignum en það var enginn sem felldi hann. Sterling féll eftir að hann sjálfur sparkaði í jörðina. Hreint út sagt ótrúlegt að dómarinn hafi dæmt víti og það sem gerir þetta enn fáránlegra er að það eru fimm dómarar á vellinum, í rauninni sex. Einn aðaldómari, tveir línuverðir, tveir sprotadómarar og hliðarlínu dómari (fjórði dómarinn).

Smelltu hér til að sjá vítaspyrnudóminn.

Sterling bað Ungverjann Viktor Kassai, dómara leiksins, afsökunar í viðtali eftir leik.

„Ég ætlaði að setja boltann yfir markvörðinn, ég veit ekki hvað gerðist. Ég fann ekki fyrir neinni snertingu. Ég bið dómarann afsökunar," sagði Sterling við BT Sport.

Pep Guardiola, stjóri City, sagði:

„Við áttuðum okkur á því að þetta var ekki vítaspyrna. Raheem hefði getað sagt eitthvað við dómarann. Við viljum ekki vera að skora svona mörk."

„Þið vitið hvað VAR (myndbandsdómgæsla) er og hvað það gerir. Dómararnir þurfa að fá hjálp."

„Leikurinn er svo hraður. Það tekur 10 sekúndur fyrir einhvern að segja eitthvað við dómarann."

Næsti leikur City er á sunnudaginn gegn nágrönnunum og erkifjendunum í Manchester United.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner