Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 04. desember 2018 10:05
Elvar Geir Magnússon
Þjálfari River Plate: Verið að ræna stuðningsmenn
Stuðningsmenn River Plate eru ástríðufullir.
Stuðningsmenn River Plate eru ástríðufullir.
Mynd: Getty Images
Það er verið að „ræna stuðningsmenn" með því að færa seinni úrslitaleik Copa Libertadores alla leið til Madrídar. Þetta segir Marcelo Gallardo, þjálfari River Plate.

River Plate gerði 2-2 jafntefli við Boca Juniors í fyrri leiknum en þegar stuðningsmenn River réðust á liðsrútu Boca fyrir seinni leikinn var leiknum tvívegis frestað.

Ákveðið var að færa leik þessara argentínsku erkifjenda yfir á Bernabeu leikvang Real Madrid og á hann að fara fram á sunnudag.

Gallardo segir að þessi ákvörðun sé algjör skandall.

„Við höfum tapað heimavallarréttinum. Einn daginn munum við hugsa til þess sem gerðist og við munum hugsa um þetta sem algjöran skandal," segir Gallardo.

„Undirbúningur okkar hefur breyst. Við erum að fara að spila 10 þúsund kílómetrum frá. Það er búið að ræna þessum leik frá stuðningsmönnum."

Hvort félag fær 25 þúsund miða á leikinn á sunnudag en aðeins 5 þúsund af þeim verður hægt að selja innan Argentínu. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að liðsmenn Barra Bravas, harðkjarna stuðningsmannahóps River Plate, ferðist í leikinn.

Sjá einnig:
Borgarstjóri talar um River Plate mafíuna

Argentínsk stjórnvöld sögðu i gær að þau væru að vinna náið með kollegum sínum á Spáni til að tryggja öryggi í Madríd.
Athugasemdir
banner
banner
banner