mið 19. desember 2018 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Neville ekki sáttur með Pogba - Segir félagið vera að ljúga
Mynd: Getty Images
Gary Neville er ekki sáttur með hegðun Paul Pogba eftir að Jose Mourinho var rekinn úr starfi sínu hjá Manchester United í gær.

Pogba birti mynd af sér á Instagram skömmu síðar og leit út fyrir að það væri einhvers konar sigurmynd af honum, eins og hann hafi unnið stríðið við Mourinho eftir mikil rifrildi síðasta árið.

Pogba var fljótur að taka myndina niður og gaf Manchester United út yfirlýsingu þess efnis að þetta hafi aðeins verið óheppileg tilviljun. Þetta hafi verið fyrirfram ákveðin auglýsing frá Adidas.

„Það er enginn vafi að Paul Pogba hafi átt í rifrildum við stjórann. Hann trúir ekki á hann, líkar ekki vel við hann og telur hann líklega ekki vera sérlega góðan stjóra," sagði Neville á Sky Sports í gær.

„Og þetta er eins á hinn bóginn. Jose Mourinho telur Pogba ekki vera jafn hæfileikaríkann og hann sjálfur heldur að hann sé. Þeir hafa átt í rifrildum í líklega 12 mánuði og það er enginn vafi á því að þeim virkilega mislíkar við hvorn annan.

„Jose Mourinho missti starfið sitt í morgun og teymið hans Pogba birti þessa mynd á Instagram.

„Ekki falla fyrir þessu kjaftæði um að þetta hafi verið löngu skipulögð auglýsing frá Adidas. Það er vitleysa, algjör vitleysa."

Athugasemdir
banner
banner