Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 19. júní 2019 13:28
Arnar Daði Arnarsson
Háværar sögur um verkfallsaðgerðir hjá leikmönnum FH
Formaðurinn neitar þessum sögum
FH-ingar fagna marki gegn Stjörnunni síðasta föstudag.
FH-ingar fagna marki gegn Stjörnunni síðasta föstudag.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Hávær orðrómur hefur verið um það að leikmenn FH í Pepsi Max-deild karla hafi verið í verkfalli í gær og ekki æft á tilsettum æfingatíma liðsins en töluvert margir leikmenn liðsins hafa samkvæmt heimildum Fótbolta.net ekki fengið laun sín greidd frá félaginu.

FH-liðið æfði í hádeginu í dag og þar voru allir leikmenn liðsins með á æfingunni fyrir utan þá Hjört Loga Valgarðsson og Jákup Thomsen sem eru að jafna sig á meiðslum og æfðu sjálfir.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net höfðu leikmenn fyrirhugað verkfallið í töluverðan tíma en hafi látið verða af því í gær, 18. júní.

Valdimar Svavarsson formaður knattspyrnudeildar FH blæs á þessar sögusagnir í samtali við Fótbolta.net.

„Ég get staðfest það að það eru ekki fjárhagsvandræði í Krikanum. Þetta er alltaf erfitt og barátta mánuð fyrir mánuð að ná inn peningum eins og er í öllum svona rekstri. En að það sé krísa í Krikanum er af og frá. Við höfum alltaf staðið við okkar skuldbindingar og munum alltaf standa við okkar skuldbindingar. Það er bara þannig í Kaplakrika."

Hann segir að í gær hafi verið fundur með leikmönnum liðsins og í kjölfarið hafi verið styrktaræfing hjá liðinu. „Það var ekkert verkfall hér."

Að lokum var Valdimar spurður að því hvort allir leikmenn FH hafi fengið laun sín greidd í sumar?

„Allir leikmenn hafa fengið laun á síðustu mánuðum og það er alltaf samkvæmt samkomulögum við viðkomandi leikmenn hvernig þeirra greiðslur fara fram. Það er erfitt stundum að ná inn peningum eins og allur íþróttaheimurinn þekkir en við höfum alltaf staðið við okkar. Við erum með allt okkar á hreinu," sagði Valdimar Svavarsson formaður knattspyrnudeildar FH í samtali við Fótbolta.net.

Sumarið 1997 mættu leikmenn KR ekki á æfingu liðsins í kjölfarið af þjálfarabreytingum þar sem Luka Kostic var sagt upp störfum og Haraldur Haraldsson var ráðinn þjálfari liðsins. „Við þurfum ekki álit leikmanna, enda kemur þeim ekkert við hvað við gerum. Þeir eru í vinnu hjá okkur og þurfa að stunda hana, annars eru þeir að brjóta samning," sagði Björgólfur Guðmundsson formaður knattspyrnudeildar KR við Morgunblaðið á sínum tíma. Þetta er síðasta verkfall knattspyrnuleikmanna á Íslandi sem vitað er til.
Athugasemdir
banner
banner
banner