Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 01. janúar 2018 13:10
Elvar Geir Magnússon
Leikur ársins 2017
Ísland vann Króatíu á Laugardalsvelli.
Ísland vann Króatíu á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stelpurnar okkar unnu magnaðan sigur gegn Þýskalandi.
Stelpurnar okkar unnu magnaðan sigur gegn Þýskalandi.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Valsmenn urðu Íslandsmeistarar.
Valsmenn urðu Íslandsmeistarar.
Mynd: Anna Þonn
Fótboltaárinu árið 2017 er lokið en Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að gera upp árið. Álitsgjöfunum er skipt upp í flokka og hér að neðan má sjá val á leik ársins 2017.

Þórir Hákonarson, íþróttastjóri:

Innlent: Engin vandamál hér, klárlega leikur Íslands gegn Króatíu á Laugardalsvelli á afmælisdag undirritaðs 11. júní. Mark Harðar Björgvins á lokamínútum leiksins setti virkilega pressu á Króatana í undankeppninni, pressu sem þeir stóðu ekki undir eins og átti eftir að koma í ljós. Erfiður leikur og kannski ekkert sérstaklega skemmtilegur áhorfs lengst af, en augnablikið ógleymanlegt þegar flautað var til leiksloka og við komnir í bílstjórasætið í riðlinum. Auðvelt val.

Erlent: Landsliðin okkar eru mjög ofarlega í huga og kannski sérstaklega undankeppni HM í okkar riðli karlamegin. Get bara ómögulega gert upp á milli þriggja mjög svo mikilvægra leikja.

Leikur Íslands gegn Tyrklandi á Eskisehir leikvangnum í Tyrklandi þar sem við hreinlega rúlluðum yfir Tyrkina og þögguðum rækilega niður í stuðningsmönnum þeirra á eigin heimavelli. Ógleymanlegur leikur í alla staði og það var eiginlega á þessum tímapunkti sem maður fór virkilega að trúa á að liðið kæmist á HM.

Leikur Króatíu og Finnlands þar sem þjóðhetjan Soiri skoraði jöfnunarmark Finnlands á 90 mín leiksins og lagði þar með sitt til málanna í baráttu okkar við að komast á HM.

Eftir erfiða úrslitakeppni í Hollandi minnti kvennalandsliðið svo rækilega á sig seint í október þegar þær unnu Þýskaland á útivelli, sá leikur markaði ákveðin tímamót varðandi kvennalandsliðið að mínu mati og nú erum við með það í hendi okkar að koma liðinu á HM í fyrsta skipti, sannfærður um að svo verði.

Mist Rúnarsdóttir, Fótbolta.net:

Innlent: Ég fæ ennþá gæsahúð þegar ég hugsa um sigur Íslands á Þýskalandi í undankeppni HM í október. Að vinna þýska stálið 3-2 á útivelli er magnað afrek. Þýskaland hefur verið yfirburðalið í knattspyrnu kvenna undanfarna áratugi og hafði ekki tapað í undankeppni stórmóts í 19 ár! Þá tókst stelpunum okkar að skora þrisvar sinnum hjá Þjóðverjum en fyrir leik hafði Ísland ekki skorað gegn Þýskalandi í 30 ár. Magnaður og sögulegur leikur að svo mörgu leyti. Líklega stærsti einstaki sigur íslensks knattspyrnulandsliðs.

Erlent: Evrópumótið í sumar var mikil skemmtun og úrslitaleikurinn á milli Hollands og Danmerkur var rjóminn á kökuna. Þar mættust tvö frábær lið sem spiluðu skemmtilegan og jákvæðan fótbolta. Bæði lið voru að leika til úrslita í fyrsta skipti og úr varð fjörugur sex marka leikur þar sem margar af bestu knattspyrnukonum heims sýndu sínar bestu hliðar. Lokatölur 4-2 fyrir Hollandi sem urðu Evrópumeistarar í fyrsta skipti eftir að hafa haldið gríðarlega flott mót. Verðskuldað hjá þeim appelsínugulu.

Benedikt Bóas Hinriksson, Fréttablaðinu:

Innlent: Ég hef heyrt að Ísland - Kosóvó hafi verið fínasta skemmtun og það sem gerðist eftir hann gleymist þeim sem sáu seint. Ég var bara lokaður inni í stúdíói að lýsa Finnland - Tyrkland. Ég hendi því þessu atkvæði á Valur - Fjölnir, þegar mínir menn tryggðu sér Íslandsmeistarabikarinn. Unnu 4-1 og spiluðu eins og sannir meistarar. Það var ekkert sérstaklega leiðinlegt.

Erlent: Færeyjar - Sviss er leikurinn. Fór til Fjöreyja með stórkostlegum mönnum þar sem við kynntum okkur hvernig frændur vorir í Færeyjum gera hlutina, innanvallar sem utan. Ótrúleg ferð frá upphafi til enda. Frá því að ég gleymdi vegabréfinu mínu - sem ég þurfti svo ekki þangað til að við lentum á Reykjavíkurvelli. Leikurinn var líka fjörugur og skemmtilegur og stuðið í stúkunni var endalaust þar sem Tólfan þeirra Færeyinga söng og trallaði. Ógleymanlegur leikur þó við höfum ekkert endilega verið að horfa mjög mikið á hann.

Sjá einnig:
Atvik ársins 2017
Karakter ársins 2017
Sigurvegari ársins 2017
Mark ársins 2017
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner