mán 01. janúar 2018 15:40
Elvar Geir Magnússon
Nýliði ársins 2017
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Kylian Mbappe.
Kylian Mbappe.
Mynd: Getty Images
Fótboltaárinu árið 2017 er lokið en Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að gera upp árið. Álitsgjöfunum er skipt upp í flokka og hér að neðan má sjá val á nýliða ársins 2017.

Tómas Þór Þórðarson, 365 miðlum:

Innlent: Andri Rúnar Bjarnason var mjög áhugaverður nýliði á sinn hátt. Þrátt fyrir að hafa spilað í meistaraflokki í mörg ár verandi 27 ára gamall má segja að hann hafi hafið nýtt fótboltalíf fyrir þetta tímabil og í raun ýtt á restart-takkann. Sá Andri Rúnar sem íslenska þjóðin heillaðist af í sumar hefur enginn séð áður. Nýr maður - nýliði.

Erlent: Kylian Mbappé verður að fá þennan titil. Skaust upp á stjörnuhimininn í Meistaradeildinni, varð franskur meistari og var svo keyptur fyrir trilljón skrilljónir til PSG. Hann var keyptur á svo mikinn pening að loksins neyðist UEFA að skoða aðeins þetta FIFA Fair Play-dæmi sem hefur verið meira í orði en á borði. Drengurinn er náttúrlega ótrúlegur og er talinn sá sem verður næst kjörinn sá besti í heimi þegar að Messi og Ronaldo loksins slaka á.

Benedikt Bóas Hinriksson, Fréttablaðinu:

Innlent: Við Newcastle menn elskum þegar vel gengur hjá okkar mönnum og þó liðið hafi verið frekar dapurt þá er einn sem stóð uppi sem sigurvegari í ár og það er Steindi með 5-0 giski sínu á Manchester City - Liverpool. Það var magnað gisk og trúlega er Steindi búinn að standa sig best af allri Newcastle fjölskyldunni.

Erlent: Huddersfield. Dásamlega skemmtilegt lið sem hefur unnið bæði Newcastle og Man. Utd. Það er reyndar ekkert erfitt að vinna Newcastle en þessi leikur gegn Manchester United er fastur í hausnum á mér. Þvílík frammistaða hjá nýliðunum. Þessi Wagner er líka mikill toppmaður virðist vera og ég skil vel Jurgen Klopp að vilja vera vinur hans.

Guðmundur Björn, frétta- og dagskrárgerðamaður á RÚV:

Innlent: Agla María og Andri Rúnar.

Agla María Albertsdóttir, sem afrekaði það að spila níu landsleiki á átjánda aldursári, 17 deildarleiki og leika í Meistaradeildinni, hlýtur að vera íslenski nýliði ársins. Það er óskandi að jafn ungir og spennandi leikmenn fari að skjóta upp kollinum í karlalandsliðinu, sem er ekki beint að yngjast.

Ég tek mér það bessaleyfi að nefna Andra Rúnar Bjarnason líka. Þótt Andri sé enginn nýliði í fótbolta, flaug hann með himinskautum í sumar og kom sér þannig í allt annan gæðaflokk. Bolvíkingurinn var glæsilegur fulltruí hinnar fótum troðnu landsbyggðar í Pepsi-deildinni í sumar og nái hann að setja 10 mörk fyrir góu eða einmánuð fer hann með til Rússlands.

Erlent: Kylian Mbappé er sá eini sem kemur til greina hér. Þetta er bæði fyrirsjáanlegt og leiðinlegt val, en tölurnar ljúga ekki. Og tilþrifin ekki heldur. Mér fannst glórulaust að mínir menn að í Liverpool væru að skoða hann síðasta sumar, hafandi aðeins spilað alvöru fótbolta í nokkra mánuði. En síðustu mánuðir hafa sýnt hvaða vit ég hef á þessu.

Sjá einnig:
Nýliði ársins 2017
Leikur ársins 2017
Atvik ársins 2017
Karakter ársins 2017
Sigurvegari ársins 2017
Mark ársins 2017
Athugasemdir
banner
banner
banner