banner
   mið 01. janúar 2020 23:03
Brynjar Ingi Erluson
Solskjær: Mér fannst Fred og Matic gera vel
Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær
Mynd: Getty Images
Norski stjórinn Ole Gunnar Solskjær var nokkuð sáttur með frammmistöðu Manchester United í 2-0 tapinu gegn Arsenal í kvöld.

Arsenal skoraði bæði mörk sín í fyrri hálfleiknum en Solskjær segir að Arsenal hafi verið betra liðið á 35 mínútna kafla í fyrri hálfleiknum.

„Þetta var leikur milli liða sem eru með mikil gæði. Arsenal sýndi það aðeins meira en við í fyrri hálfleiknum og þannig unnu þeir leikinn," sagði Solskjær við BT Sport.

„Mér fannst leikurinn fínn. Við fengum 2-3 skyndisóknir en svo komst Arsenal inn í leikinn. Við tókum of margar snertingar og þeir unnu boltann af okkur. Ég var vonsvikinn með að fá þessi mörk á okkur og úrslitin eru oft ákveðin á litlu hlutunum en þeir voru betri en við í 35 mínútur."

„Við erum í góðu standi og erum að bæta okkur. Strákarnir hafa lagt mikla vinnu í hlutina síðustu mánuði og við höfum vissulega átt góða og slæma tíma en ég get ekki kennt þeim um þetta því orkan og drifkrafturinn hefur verið til staðar."


Glugginn opnaði á Englandi í dag en Solskjær gæti styrkt hópinn.

„Ég hugsa að það væri notalegt að fá einn eða tvo inn því við erum að byggja til framtíðar en það fer eftir því hvort þessir leikmenn eru fáanlegir."

Paul Pogba verður þá frá næstu vikurnar en hann segir að leikmaðurinn gæti þurft að fara í aðgerð.

„Hann er meiddur. Hann þarf líklegast að fara í aðgerð á fæti en sjáum hvað það tekur langan tíma fyrir hann að koma til baka. Þetta er auðvitað mikið áfall þar sem Scott McTominay er einnig meiddur en mér fannst Fred og Nemanja Matic góðir í dag," sagði Solskjær í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner