Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 01. janúar 2021 13:18
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Elísabet og Þorsteinn þjálfarar sem komu fyrst í hugann á Vöndu
Icelandair
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad í Svíþjóð.
Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar Kristianstad í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda er fyrrum landsliðsþjálfari.
Vanda er fyrrum landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir, fyrrum landsliðsþjálfari, ræddi við Heimavöllinn um næsta kvennalandsliðsþjálfara en nú stendur yfir leit að þeim þjálfara.

Jón Þór Hauksson var rekinn eftir að liðið tryggði sig á EM. Hann sagðist hafa brugðist sem þjálfari liðsins með því að að eiga samtöl undir áhrifum áfengis eftir sigur liðsins á Ungverjalandi.

„Það þarf að vanda sig... og ég vil að þeir spái í það hvað landsliðsþjálfari þarf að hafa. Hvað þarf maður að hafa gert áður svo maður geti orðið landsliðsþjálfari?" sagði Vanda og vill hún að KSÍ hafi A-landslið karla til hliðsjónar í valinu á næsta landsliðsþjálfara kvenna. „Myndum við ráða þessa manneskju, með þessar kríteríur, sem þjálfara A-landsliðs karla? Ef svarið er nei, af hverju ættum við að ráða þann þjálfara sem A-landsliðs kvenna? Þetta eru mín bestu ráð."

„Það er flókið að vera landsliðsþjálfari. Þú þarft að hafa býsna marga eiginleika. Það er ekki nóg að vera bara góður fótboltalega séð. Það er ekki heldur nóg að vera bara góður í mannlegum samskiptum ef maður hefur ekki þetta fótboltalega."

„Ég vil að næsta þjálfari sé rosalega góður í taktík... ég kvarta yfir sóknarleiknum. Ég hefði viljað vera flug á vegg á fylgjast með æfingum. Með fullri virðingu fyrir síðustu þjálfurum, þá vil ég að næsti þjálfari sé rosalega góður í taktík."

„Ég er ekki að gagnrýna þá sem hafa verið, ég er ein af þeim sjálf. Ég er bara að hugsa fram á við, hvað langar mig; þetta eru draumar Vöndu. Ég er ekki að skjóta á neina aðra, þetta er bara hvað mig langar í nýjum þjálfara. Þessi mannlegur þáttur er líka rosalega mikilvægur, að geta drifið leikmenn með sér."

Hvaða kandídatar eru í huga Vöndu?

„Ég er búinn að vera að hugsa þetta. Draumur hjá mér er að einhvern tímann fáum við rosalega flottan erlendan þjálfara. Svipað og gerðist þegar KSÍ tók eina af sínum betri ákvörðunum og réði Lars Lagerback. Áhrifin sem það hafði á karlalandsliðið, kvennalandsliðið og alla umgjörð eru ótrúleg. Það er gaman að hafa fylgst með því. Ég væri svo til í að við myndum gera það sama kvennameginn."

„Þá er ég að tala um Pia Sundhage, einhverja sem hefur þjálfað Bandaríkin eða Þýskaland; flottan þjálfara með alþjóðlega reynslu. Hafandi sagt þetta þá finnst mér við ekki eiga endilega að gera það núna."

„Þegar ég var að hugsa þennan draum þá hugsaði ég að við værum kannski með þjálfara hérna heima sem uppfylla þetta."

„Fyrst ber að nefna þjálfara ársins, Elísabetu Gunnarsdóttur. Hún uppfyllir allt sem ég er að tala um, hefur þessa alþjóðlega reynslu og er búin að fá viðurkenningar margar. Hún er í þessu af lífi og sál... það er erfitt að líta fram hjá öllu því sem hún hefur gert. Mér finnst hún mjög spennandi kostur," sagði Vanda.

„Ég gæti nefnt fleiri líka. Þorsteinn Halldórsson hjá Breiðabliki, ég hef verið mjög hrifin af mörgu því sem hann er að gera. Mér finnst liðið spila skemmtilegan sóknarbolta og fá á sig fá mörk. Hann er búinn að vera með þessar ungu stelpur sem voru að heilla þjóðina í A-landsliðinu. Hann uppfyllir skilyrðin."

„Þau tvö komu fyrst upp hjá mér. Freyr (Alexandersson), við vitum ekki hvað hann gerir. Það væri mjög gaman að fá Heimi Hallgrímsson, mér finnst að hann eigi að setja sér markmið að koma aftur í kvennaboltann áður en hann hættir að þjálfa."

Vanda nefndi líka Jörund Áka Sveinsson og Halldór Jón Sigurðsson, betur þekktan sem Donna. Vanda vonast til að næsti þjálfari verði í langan tíma landsliðsþjálfari. Hlusta má á viðtalið allt í Heimavellinum hér að neðan.
Áramótabomba Heimavallarins - Glerþök mölvuð
Athugasemdir
banner
banner
banner