Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
banner
   mið 01. febrúar 2023 12:00
Elvar Geir Magnússon
Cancelo getur ekki höndlað að vera á bekknum
Joao Cancelo.
Joao Cancelo.
Mynd: EPA
Cancelo og Guardiola.
Cancelo og Guardiola.
Mynd: Getty Images
Fótboltasérfræðingurinn þekkti Guillem Balague segir frá því að Joao Cancelo hafi verið orðinn áhugalaus og gefið frá sér neikvæða orku áður en Manchester City ákvað að losa sig við hann.

Þessi portúgalski bakvörður var lánaður til Bayern München út tímabilið. Ekki er búist við því að Cancelo muni snúa aftur til City en Bayern er með ákvæði um að geta keypt á hann á rúmlega 60 milljónir punda.

„City fann það út á fyrsta tímabili Cancelo hjá félaginu að leikmaðurinn tók því ekki vel að vera settur á bekkinn. Þegar hann var ekki valinn í byrjunarliðið hafði hegðun hans truflandi áhrif. Hann varð áhugalaus, var greinilega ósáttur, virtist ekki hlusta á þjálfarana og var einbeitingarlaus á æfingum," segir Balague.

„Þessi hegðun hans var ráðandi í samskiptum hans við Pep Guardiola þegar það kom í ljós eftir HM að hann átti ekki öruggt sæti. Hann var óvirkur á æfingasvæðinu, talaði hátt um óánægju sína og höndlaði ekki stöðuna."

„Liðsfélagar hans reyndu að ræða við hann og fá hann til að láta af þessari hegðun en það bar ekki árangur. Pep talaði um það á fréttamannafundi nýlega að það væri skortur á hungri í hópnum og var þá að vísa til nokkurra leikmanna, þar á meðal Cancelo."

Balague segir þó að samband Cancelo og Pep Guardiola sé þó ekki alveg eyðilagt. Hann telur að Cancelo geti á næstu mánuðum unnið traust stjórans að nýju og hafi tækifæri til að sýna að hann geti hegðað sér eins og krafist er af leikmönnum City.

Sjá einnig:
Guardiola fékk nóg af Cancelo eftir rifrildi á æfingasvæðinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner