sun 01. maí 2022 19:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ég held að Siggi ætti að reyna að drífa sig eitthvað annað"
Sigurður Egill Lárusson.
Sigurður Egill Lárusson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Egill Lárusson var aftur utan hóps hjá Val í gær þegar þeir spiluðu við KR í gærkvöld. Hann hefur verið utan hóps í síðustu tveimur leikjum Vals.

Hann er þrítugur kantmaður sem hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari sem leikmaður Vals en þar hefur hann verið frá árinu 2013. Sigurður kom við sögu í 21 deildarleik í fyrra og skoraði fimm mörk þegar Valur endaði í fimmta sæti í efstu deild.

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var spurður út í það síðasta fimmtudag hvort að Sigurður yrði í hóp gegn KR. Þá sagði hann: „Það kemur bara í ljós á æfingunni á morgun. Hann er búinn að vera duglegur í vikunni."

Leikmaðurinn hefur verið orðaður við Fram og FH, og spurning hvort hann fari fyrir gluggalok. Hann er allavega ekki ánægður með að vera utan hóps.

„Siggi er mikill keppnismaður og hann er ekki sáttur við að vera ekki í byrjunarliðinu. Hann lætur vita af því að hann sé pirraður og fúll. Mér finnst það eðlilegt að leikmenn sýni að þeir séu fúlir með að vera ekki í byrjunarliðinu. Það er áhugavert að taktíkin sem er notuð við því sé að taka hann úr hóp," sagði Arnar Sveinn Geirsson, fyrrum liðsfélagi Sigurðar hjá Val, í hlaðvarpinu Dr Football á dögunum.

„Samkvæmt mínum upplýsingum er hann ekki meiddur eða tæpur. Ég held að Siggi ætti að reyna að drífa sig eitthvað annað."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner