sun 01. maí 2022 22:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kristian einn af 21 sem fengu fyrsta tækifærið hjá Ten Hag
Kristian Nökkvi Hlynsson.
Kristian Nökkvi Hlynsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik ten Hag mun í sumar taka við sem knattspyrnustjóri Manchester United á Englandi.

Ten Hag hefur undanfarin fimm ár stýrt Ajax í Hollandi með eftirtektarverðum árangri. Árið 2019 var hann hársbreidd frá því að fara í úrslitaleik Meistaradeildarinnar með liðið.

„Erik hefur sannað sig sem einn af mest spennandi og farsælustu þjálfurum í Evrópu, og er hann þekktur fyrir fallegan sóknarfótbolta og fyrir það að gefa ungum leikmönnum tækifæri," sagði John Murtough, yfirmaður fótboltamála hjá Man Utd, þegar tilkynnt var um ráðninguna.

Ajax og Man Utd eiga það sameiginlegt að hafa verið með sterka unglingaakademíu í gegnum árin og Ten Hag hefur nýtt akademíuna hjá Ajax vel. Hann er búinn að gefa 21 leikmanni úr akademíunni sitt fyrsta tækifæri með aðalliðinu.

Einn af þeim leikmönnum er hinn 18 ára gamli Kristian Nökkvi Hlynsson. Kristian hefur spilað tvo leiki með aðalliðinu á þessu tímabili og skorað tvö mörk.

Hægt er að skoða listann yfir þá leikmenn sem hafa fengið sitt fyrsta tækifæri undir stjórn Ten Hag með því að smella hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner