Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 01. júní 2021 15:03
Elvar Geir Magnússon
„Hefðum gjarnan viljað hafa markaskorarann okkar með"
Icelandair
Birkir Már Sævarsson var öflugur gegn Mexíkó.
Birkir Már Sævarsson var öflugur gegn Mexíkó.
Mynd: Getty Images
Aron Einar og Jón Daði Böðvarsson á landsliðsæfingu í dag.
Aron Einar og Jón Daði Böðvarsson á landsliðsæfingu í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Már Sævarsson, bakvörður Vals, átti stóran þátt í mark Íslands gegn Mexíkó. Birkir er þó farinn út úr hópnum og verður ekki með í komandi vináttulandsleikjum; gegn Færeyjum í Þórshöfn á föstudag og Póllandi í næstu viku.

Það eru fjórir leikmenn úr Pepsi Max-deildinni áfram í hópnum en Birkir er ekki einn af þeim. Fótbolti.net spurði Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara út í ástæðu þess að Birkir, sem er kominn með 98 landsleiki, verður ekki með.

„Ástæðan er einfaldlega sú að prógrammið hjá Val er aðeins stífara en hjá öðrum félögum í Evrópukeppninni. Það er nánast ómögulegt að koma fyrir öllum þeim leikjum sem búist er við hjá Val. Við sem þjálfarar hefðum gjarnan viljað hafa markaskorarann okkar með," sagði Arnar og brosti.

Valur á að mæta Víkingi á mánudaginn í Pepsi Max-deildinni.

Sjá einnig:
Sjáðu hópinn sem fer til Færeyja

Arnar býst við því að hópurinn sem verður gegn Póllandi haldist óbreyttur frá hópnum sem kynntur var fyrir Færeyjaleikinn.

„Mjög líklega. Það gætu orðið einhverjar breytingar. Við erum 24 samtals. Við vonum að allir komi heilir úr leiknum gegn Færeyjum. Svo þarf að klára mál varðandi íslensku deildina, ef það verður erfitt að fresta leikjum vegna Evrópuleikja seinna í sumar þá gætum við þurft að gera breytingar. Ég fæ upplýsingar um það á næstu dögum," segir Arnar.

Aron Einar verður með í Þórshöfn
Markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson og varnarmaðurinn Jón Guðni Fjóluson verða ekki með í komandi leikjum vegna meiðsla. Aron Einar Gunnarsson fyrirliði fór meiddur af velli gegn Mexíkó en verður klár gegn Færeyjum.

„Aron æfði með okkur nánast alla æfinguna í dag. Hann verður klár í heila æfingu á morgun og þetta lítur mjög vel út," segir Arnar.

Ísland tapaði 2-1 fyrir Mexíkó í Dallas í Bandaríkjunum um síðustu helgi en Arnar var mjög ánægður með frammistöðu liðsins.

„Við erum mjög ánægðir með Mexíkóleikinn og undirbúninginn fyrir hann. Við erum mjög ánægðir með þann stíganda sem hefur verið hjá leikmönnum. Við fengum ekki mörg færi á okkur á móti Mexíkó. Það jákvæðasta er að andinn í hópnum var mjög góður," segir Arnar Þór Viðarsson.
Athugasemdir
banner
banner