mið 01. júní 2022 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Leeds að krækja í annan leikmann frá Salzburg
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Leeds United bjargaði sér frá falli á lokadegi enska úrvalsdeildartímabilsins og þarf að styrkja hópinn fyrir næstu leiktíð undir Jesse Marsch.


Bandaríski þjálfarinn Marsch hefur starfað fyrir Red Bull undanfarin ár þar sem hann hefur stýrt New York Red Bulls, Red Bull Salzburg og RB Leipzig síðan 2015.

Marsch hefur greinilega góð sambönd hjá Red Bull því fyrsti leikmaðurinn sem Leeds keypti í sumar var Brenden Aaronson, bráðefnilegur miðjumaður Salzburg.

Núna er Leeds að reyna við hægri bakvörðinn Rasmus Nissen Kristensen sem er einnig hjá Salzburg.

Kristensen, sem er yfirleitt kallaður NK eða Nissen í heimalandinu, er danskur landsliðsmaður sem hóf ferilinn hjá Midtjylland og fór svo til Ajax áður en hann var fenginn til Austurríkis.

Nissen, sem verður 25 ára í sumar, var algjör lykilmaður í yngri landsliðum Dana og hefur spilað fjóra A-landsleiki frá því í september.

Nissen vill ólmur spila í ensku úrvalsdeildinni en Leeds og Salzburg eiga eftir að komast að samkomulagi um kaupverð. Aaronson kostaði tæplega 30 milljónir punda og er Kristensen metinn á 15 milljónir.


Athugasemdir
banner
banner
banner