Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 01. júní 2022 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Messi lenti illa í Covid: Mikið af eftirköstum
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Lionel Messi gaf ítarlegt viðtal við TyC Sports þar sem hann fór víðan völl og ræddi meðal annars erfiðleika sína eftir að hafa smitast af Covid-19.


Messi fékk Covid í lok desember og missti af þremur leikjum eftir áramót. Hann var búinn með Covid 5. janúar en mætti ekki aftur á völlinn fyrr en 23. janúar, mánuði eftir að hafa spilað síðast keppnisleik.

„Sannleikurinn er sá að ég kom mjög illa úr Covid. Ég fékk mikið af eftirköstum og þetta hafði áhrif á lungun. Ég var frá keppni í heilan mánuð og gat ekki einu sinni hlaupið útaf lungunum," sagði Messi.

„Ég var óþolinmóður og vildi æfa en læknarnir leyfðu mér það ekki. Svo byrjaði ég að æfa alltof snemma og gerði illt verra. Þegar ég var kominn hálfa leið til baka með lungun þá gerðist tapið í Madríd sem drap tímabilið fyrir okkur."

PSG tapaði gegn Real í mars og var Messi þá búinn að spila 90 mínútur í öllum leikjum síðan í janúar. Hann upplifði mótlæti eftir tapið gegn Real þar sem stuðningsmenn PSG bauluðu á sína menn, en sérstaklega á Messi og Neymar.

„Þetta var alveg nýtt fyrir mér, þetta gerðist aldrei fyrir mig hjá Barcelona. Það er skiljanlegt að fólk finni fyrir reiði vegna þess að við erum með magnaða leikmenn sem eiga að vinna stærstu keppnirnar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta kemur fyrir félagið og það er skiljanlegt að stuðningsmenn séu þreyttir og reiðir.

„Mér finnst leiðinlegt að fjölskyldan mín hafi þurft að upplifa þetta og sérstaklega synir mínir. Þau skildu ekki hvers vegna þetta var að gerast.

„Ég vona að mér takist að snúa þessu við svo ég sé ekki með tilfinningu að ég hafi skipt um félag án þess að standast væntingar. Ég veit að næsta tímabil verður öðruvísi, ég er klár í slaginn.

„Ég er byrjaður að þekkja félagið og borgina og mér líður aðeins betur með liðsfélögunum í búningsklefanum. Ég er viss um að næsta leiktíð verður betri."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner