sun 01. júlí 2018 16:44
Ívan Guðjón Baldursson
HM: Spánn úr leik eftir vítaspyrnukeppni
Artem Dzyuba fagnar.
Artem Dzyuba fagnar.
Mynd: Getty Images
Spánn 1 - 1 Rússland (4-3 í vítaspyrnukeppni)
1-0 Sergey Ignashevich ('12, sjálfsmark)
1-1 Artem Dzyuba ('41, víti)

Heimamenn í Rússlandi mættu Spánverjum í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins. Búist var við sigri Spánverja og komust þeir yfir snemma leiks.

Isco vann þá aukaspyrnu úti á kanti sem Sergey Ignashevich endaði á að setja óvart í eigið net. Ignashevich, sem er rúmlega 38 ára gamall, sneri baki í boltann til að dekka Sergio Ramos. Rússinn fékk boltann í hælinn og þaðan fór hann í netið þar sem Igor Akinfeev kom engum vörnum við.

Spánverjar stjórnuðu leiknum en voru ekki að skapa sér hættuleg færi. Rússarnir spiluðu agaðan varnarleik og reyndu að nýta skyndisóknir, sem gekk ekki sérlega vel.

Heimamenn fengu þó vítaspyrnu rétt fyrir leikhlé, þegar Artem Dzyuba skallaði boltann í hönd Gerard Pique eftir hornspyrnu. Dzyuba steig sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Spánverjar héldu áfram að stjórna leiknum en náðu ekki að skapa sér mikið og var leikurinn framlengdur. Spánverjar héldu áfram að halda boltanum og byrjuðu að skapa sér fleiri færi gegn dauðþreyttum Rússum en inn vildi boltinn ekki og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni.

Bæði lið skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnunum sínum en Koke og Iago Aspas brenndu af fyrir Spán. Rússar slógu því Spánverja úr leik með vítaspyrnu til góða.

Gangur vítakeppninnar:
1-0 Iniesta skoraði fyrir Spánverja
1-1 Smolov jafnaði en De Gea var í boltanum
2-1 Pique skoraði stöngin inn
2-2 Ignashevich jafnaði
2-2 Varið frá Koke
2-3 Golovin skoraði
3-3 Ramos skoraði af öryggi
3-4 Cheryshev skoraði
3-4 Aspas varð að skora en vítaspyrna hans var varin
Athugasemdir
banner
banner
banner