mán 01. júlí 2019 14:29
Elvar Geir Magnússon
ÍBV í þjálfaraleit - „Setjumst niður þegar nýr maður finnst"
Ian Jeffs er með ÍBV á sinni könnu sem stendur.
Ian Jeffs er með ÍBV á sinni könnu sem stendur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Pedro Hipolito var í gær rekinn frá ÍBV en aðstoðarmaður hans, Ian Jeffs, tekur við liðinu til bráðabirgða. Magnús Elíasson hjá knattspyrnuráði ÍBV segir að málin séu í skoðun.

„Jeffsy er með þetta eins og er en við erum að leita að manni til að koma inn í þetta með honum. Við erum að skoða þau mál," segir Magnús.

Er hugsunin að Ian Jeffs verði áfram aðstoðarþjálfari þegar nýr þjálfari kemur inn?

„Það er allt óráðið. Hann er með þetta á sinni könnu núna og þegar við höfum fundið nýjan mann þá setjumst við niður og stillum þessu upp fyrir restina af tímabilinu."

Magnús segir að þjálfaraleitin sé aðeins innanlands sem stendur en miðað við orð hans er mögulegt að Jeffs verði aðalþjálfari og nýr aðstoðarþjálfari komi þá inn.

Var brottreksturinn búinn að vera í deiglunni lengi eða var það bara eftir tapið gegn Stjörnunni sem þetta var ákveðið?

„Það segir sig sjálft að árangurinn hefur ekki verið nægilega góður. Þetta eru fjórir tapleikir í röð. Það þurfti að breyta einhverju. Eins og hefur gerst milljón sinnum í fótbolta þá er ekki hægt að losa sig við liðið og moka inn nýjum mönnum, þetta er það eina sem hægt er að gera til að breyta."

Það hljóta að vera mikil vonbrigði að ekki hafi gengið betur undir stjórn Pedro?

„Algjörlega. Þetta er einn færasti þjálfari sem við höfum séð hérna í Eyjum. Hann er þvílíkt vinnusamur og þetta lofaði mjög góðu. Þetta eru mikil vonbrigði. Þetta gekk ekki upp hérna en ég vona að það gangi vel hjá honum í næsta starfi."

Það hafa verið örar þjálfarabreytingar hjá ÍBV. Alls hafa tólf menn þjálfað ÍBV undanfarin átta tímabil.

„Þetta er mjög erfitt, hérna í Eyjum og hjá fleiri félögum á landsbyggðinni. Við þurfum þjálfara sem þarf að flytja til Eyja og ná að halda honum. Það eru miklar breytingar á liðinu á hverju tímabili og þetta er erfitt umhverfi. Þetta er ströggl," segir Magnús Elíasson í knattspyrnuráði ÍBV.

Næsti leikur ÍBV er heimaleikur gegn KR næsta laugardag en liðið er í neðsta sæti með aðeins fimm stig.

Sjá einnig:
Pedro Hipolito hættur sem þjálfari ÍBV (Staðfest)
Pedro Hipolito: ÍBV hefur verið í fjárhagsörðugleikum
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner