Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 01. júlí 2019 21:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: KR býr til forskot - Tveir markalausir leikir
KR vann toppslaginn gegn Blikum.
KR vann toppslaginn gegn Blikum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn skoraði gegn sínum gömlu félögum.
Kristinn skoraði gegn sínum gömlu félögum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lennon klikkaði á vítapunktinum.
Lennon klikkaði á vítapunktinum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
KR er búið að búa til bil á toppnum í Pepsi Max-deildinni, bil sem telur fjögur stig. Tvö efstu lið deildarinnar, KR og Breiðablik, áttust við á Meistaravöllum í Vesturbæ í kvöld.

Kristinn Jónsson, fyrrum leikmaður Breiðabliks, skoraði fyrsta mark leiksins eftir átta mínútur og kom þá KR yfir. Atli Sigurjónsson tók hornspyrnu og sendi boltann út á Kristin sem lék á varnarmenn og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Stuttu eftir markið urðu gestirnir úr Kópavogi fyrir miklu áfalli þegar markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Inn á í hans stað kom Hlynur Örn Hlöðversson í sinn annan leik í efstu deild.


Undir lok fyrri hálfleiks þurfti Alex Freyr Hilmarsson, leikmaður KR, að fara meiddur af velli. Það leit illa út og þurfti Alex að fara út af á börum. Staðan að loknum fyrri hálfleiknum var 1-0 fyrir KR. Mark Kristins skildi liðin að.

Það var mikill hiti í þessum leik enda um stærsta leik tímabilsins hingað til að ræða. Á 58. mínútu fékk Thomas Mikkelsen dauðafæri til að jafna en Beitir varði meistaralega frá honum af stuttu færi. Beitir búinn að vera magnaður í sumar.

Stuttu eftir þetta dauðafæri komst KR í 2-0. Óskar Örn átti þá skot sem fór beint á markið, en í gegnum hendurnar á Hlyni. Slæm mistök hjá varamarkverðinum.

Ekki voru fleiri mörk skoruð og lokatölur því 2-0 fyrir KR sem er núna á toppnum með 26 stig, fjórum stigum meira en Blikar. Útlitið er mjög gott fyrir KR eins og staðan er núna. KR hefur unnið níu leiki í öllum keppnum. Síðasti tapleikur liðsins var þann 16. maí gegn Grindavík.

Markalaust í hinum leikjum kvöldsins
Það fóru fram tveir aðrir leikir í kvöld í Pepsi Max-deildinni og hófust þeir á sama tíma og toppslagur KR og Blika.

FH sótti Grindavík heim suður með sjó. Þessi lið mættust í síðustu viku í Mjólkurbikarnum og þá vann 7-1 sigur. Grindvíkingar tóku sig heldur betur saman í andlitinu fyrir leikinn í kvöld því hann endaði með markalausu jafntefli.

Steven Lennon, sem spilaði allan leikinn í kvöld, fékk besta færi leiksins er hann klúðraði vítaspyrnu eftir stundarfjórðung í seinni hálfleiknum.

FH er ekki að ná í nægilega góð úrslit í Pepsi Max-deildinni og er liðið aðeins með 13 stig eftir 10 leiki. Grindavík, sem hefur fengið á sig fæst mörk í Pepsi Max-deildinni, er með 11 stig.

Í Víkinni var heldur ekkert skorað þar sem Víkingur og ÍA mættust, en einnig var boðið upp á vítaklúður þar eins og í Grindavík. Nikolaj Hansen klúðraði vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, braut af sér og bætti upp fyrir það með að verja vítið.

„Leiknum er lokið með steindauðu 0-0 jafntefli eftir virkilega dapran seinni hálfleik," skrifaði Sverrir Örn Einarsson þegar hann lauk textalýsingu sinni í kvöld úr Fossvoginum.

Sigurgöngu Víkinga lokið og taphrinu ÍA lokið. Víkingur hafði unnið þrjá leiki í röð fyrir leikinn í kvöld - liðið er níunda sæti með 11 stig. ÍA hafði tapað fjórum í röð og er liðið núna í fjórða sæti með 17 stig.

KR 2 - 0 Breiðablik
1-0 Kristinn Jónsson ('8 )
2-0 Óskar Örn Hauksson ('61 )
Lestu nánar um leikinn

Grindavík 0 - 0 FH
0-0 Steven Lennon ('60 , misnotað víti)
Lestu nánar um leikinn

Víkingur R. 0 - 0 ÍA
0-0 Nikolaj Andreas Hansen ('41 , misnotað víti)
Lestu nánar um leikinn



Athugasemdir
banner
banner