Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 01. september 2021 23:30
Brynjar Ingi Erluson
Fyrirliði Einherja segir frá heilablóðfalli sem hann varð fyrir
Bjartur Aðalbjörnsson, sem er hér fyrir miðju, fékk heilablóðfall á dögunum og verður ekki meira með Einherja á tímabilinu
Bjartur Aðalbjörnsson, sem er hér fyrir miðju, fékk heilablóðfall á dögunum og verður ekki meira með Einherja á tímabilinu
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Bjartur Aðalbjörnsson, fyrirliði Einherja í 3. deildinni, verður ekki meira með liðinu á þessu tímabili eftir að hann fékk heilablóðfall en hann segir frá þessari skelfilegu lífsreynslu á samfélagsmiðlum.

Bjartur er ekki bara fyrirliði Einherja heldur er hann einnig formaður félagsins.

Hann hefur spilað 159 leiki og skorað 25 mörk fyrir félagið og aðeins spilað fyrir eitt félag á öllum ferlinum.

Þessi 27 ára gamli leikmaður segir frá erfiðri lífsreynslu sem hann varð fyrir á dögunum en hann lá á spítala í sex daga eftir að hafa fengið heilablóðfall.

„Nú erum við Urður komin aftur heim í Ásgarð en ég hef síðustu 6 daga legið inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri eftir að hafa fengið heilablóðfall snemma á fimmtudag. Einkennin eru að mestu gengin til baka og þakka ég Guði fyrir að ekki fór verr."

„Ég er í fínu lagi en þreklítill og þreyttur á líkama og sál. Ég get ekki spilað fótbolta meir á þessu tímabili og er sárt að geta ekki barist með liðsfélögunum í fallbaráttunni. En það er andlega hliðin sem er þyngst. Nú er þetta fjórða heilablóðfallið hjá okkur feðgum á 3 árum."

„Þetta eru allt lítil áföll sem reyna á sálina. Kannski sérstaklega því þessi litlu áföll rífa alltaf upp smá hluta af sárinu sem varð til þegar mamma kvaddi. Einmitt eftir heilablóðfall. Hræðsla. Lífið kroppar í þetta sálarsár og það er erfitt."

„Og við þetta verður sálin svo þreytt, maður harkar af sér og spennir hana upp og kreppir. Svo þegar álagið verður of mikið gefur sálin sig og maður brotnar. Þunginn, sorgin, kvíðinn, og hræðslan brjótast fram í allskonar myndum. Og það er erfitt en gott."

„Núna ætlaði ég einmitt að harka af mér en sálin leyfir það ekki. Nú þarf ég að leyfa henni að jafna sig. Ég þarf að gráta - hvíla mig. Ég þarf að leyfa líkama og sál að safna kröftum. Og ég ber vissa virðingu fyrir þeirri staðreynd. Það er ekkert sjálfsagt. Við vitum það öll. Það kunnast örugglega margir við þessar tilfinningar. Að harka af sér þar til allt gefur sig. Langaði bara að koma þessu frá mér,"
sagði hann ennfremur.


Athugasemdir
banner
banner