Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 01. september 2022 18:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjólkurbikarinn: FH í bikarúrslit eftir rosalegan leik
FH-ingar eru komnir í bikarúrslit.
FH-ingar eru komnir í bikarúrslit.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH 2 - 1 KA
0-1 Elfar Árni Aðalsteinsson ('18 )
1-1 Oliver Heiðarsson ('74 )
1-1 Steven Lennon ('78 , misnotað víti)
2-1 Davíð Snær Jóhannsson ('93 )
Rautt spjald: Bryan Van Den Bogaert, KA ('70) Lestu um leikinn

Það ætlaði allt um koll að keyra í Kaplakrika klukkan 18:50 á þessu ágæta fimmtudagskvöldi.

Á þeim tíma skoraði Davíð Snær Jóhannsson sigurmark FH í frábærum leik gegn KA í undanúrslitum Mjólkurbikars karla.

KA-menn þóttu líklegri fyrir þennan leik og þeir tóku forystuna á 18. mínútu er Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði. Staðan var 0-1 þegar var flautað til hálfleiks.

Það var meiri kraftur í heimamönnum í seinni hálfleik og þeir fengu innspýtingu þegar Bryan Van Den Bogaert fékk sitt annað gula spjald fyrir klaufalegt brot. Stuttu eftir það jafnaði Oliver Heiðarsson metin fyrir FH.

Ellefu leikmenn FH pressuðu tíu leikmenn KA. Á 78. mínútu var dæmd vítaspyrna þegar Gaber Dobrovoljc braut klaufalega af sér innan teigs. Steven Lennon fór á punktinn en Kristijan Jajalo varði vel frá honum.

Þetta var stórkostlegur leikur, en það stefndi í jafntefli og framlengingu. En rétt áður en flautað var til leiksloka skoraði Davíð Snær Jóhannsson stórglæsilegt sigurmark. „VARAMAÐURINN DAVÍÐ SNÆR AÐ FARA LANGT MEÐ AÐ SKJÓTA FH Í ÚRSLITALEIKINN!" skrifaði Elvar Geir Magnússon í beinni textalýsingu.

Davíð Snær átti stórkostlega innkomu í þennan leik og hann var hetjan, 2-1 sigur FH staðreynd.

Það verða Víkingur og FH sem mætast í bikarúrslitaleiknum. Þessi lið mættust einnig 2019 og þá höfðu Víkingar betur. Víkingar eru ríkjandi bikarmeistarar.


Athugasemdir
banner
banner
banner