Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 01. október 2021 19:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Glódís skoraði í stórsigri, Aron í tapliði og flott frumraun Hákons
Glódís fer ótrúlega vel af stað með Bayern.
Glódís fer ótrúlega vel af stað með Bayern.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar spilaði í stóru tapi. Hann er ekki í landsliðshópnum.
Aron Einar spilaði í stóru tapi. Hann er ekki í landsliðshópnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Rafn Valdimarsson.
Hákon Rafn Valdimarsson.
Mynd: Elfsborg
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Glódís Perla Viggósdóttir var á skotskónum fyrir Bayern München í öruggum sigri á Köln í fjórðu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Glódís, sem er einn besti miðvörður Evrópu, er á sínu fyrsta tímabili með Bayern og hún fer mjög vel af stað, eins og liðið allt. Hún skoraði fimmta mark liðsins í 6-0 sigri liðsins á Köln. Þetta er annað markið sem Glódís skorar fyrir þýska stórveldið.

Hin efnilega Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Bayern á 77. mínútu.

Bayern er á toppnum með fullt hús eftir fjóra leiki. Liðið er búið að skora 21 mark og ekki fá á sig eitt einasta. Mögnuð byrjun hjá Íslendingaliðinu.

Aron spilaði í stóru tapi
Miðjumaðurinn Aron Einar Gunnarsson spilaði í dag allan leikinn í þriggja manna vörn þegar lið hans, Al Arabi, tapaði stórt á heimavelli gegn Al Sadd í Katar.

Öll fjögur mörkin hjá Al Sadd - í 0-4 sigri - komu í seinni hálfleiknum. Þjálfari Al Sadd er Barcelona goðsögnin Xavi. Hann er núna orðaður við þjálfarastarfið hjá Barcelona, ekki í fyrsta sinn.

Aron Einar hefur verið mikið í umræðunni á Íslandi í gær og í dag, í kjölfarið á því að hann var ekki valinn í landsliðið.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók fyrir skömmu upp að nýju rannsókn á meintu ofbeldisbroti landsliðsfyrirliðans Arons Einars. Aron gaf kost á sér í íslenska landsliðshópinn en var ekki valinn. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær segist hann hafa verið settur saklaus til hliðar í nýrri útilokunarmenningu KSÍ.

„Á samfélagsmiðlum hefur verið til umræðu atburður sem sagt er að hafi átt sér stað í Kaupmannahöfn 2010. Ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða málið formlega við KSÍ, eða verið gefinn kostur á standa á rétti mínum gagnvart ávirðingunum, og því sárnar mér þessi fyrirvaralausa ákvörðun um að verða settur út úr liðinu," segir meðal annars í yfirlýsingu Arons.

Samkvæmt heimildum RÚV var lögð fram kæra vegna þessa máls á sínum tíma en hún svo dregin til baka. Brotaþoli hafi nýverið óskað eftir því að rannsóknin yrði tekin upp að nýju og var það gert.

Hákon þreytti frumraun sína
Markvörðurinn efnilegi Hákon Rafn Valdimarsson þreytti í dag frumraun sína með Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni. Þessi 19 ára gamli markvörður stóð vaktina í sigri gegn Gautaborg á heimavelli.

Hákon Rafn gerði sér lítið fyrir og hélt hreinu í leiknum, í 1-0 sigri. Sveinn Aron Guðjohnsen, sem var í gær valinn í A-landsliðshópinn, var ónotaður varamaður hjá Elfsborg í dag. Kolbeinn Sigþórsson, sóknarmaður Gautaborgar, er meiddur og var ekki með í dag. Markvörðurinn Adam Ingi Benediktsson var á bekknum hjá Gautaborg.

Elfsborg er í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og situr Gautaborg í 12. sæti.

Birkir spilaði og Balotelli skoraði
Landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason spilaði á miðsvæðinu hjá Adana Demirspor í góðum útisigri gegn Antalyaspor í tyrknesku úrvalsdeildinni.

Mario Balotelli kom Birki og félögum á bragðið í leiknum undir lok fyrri hálfleiks. Argentínumaðurinn Matías Vargas skoraði sigurmarkið fyrir Adana Demirspor, sem er í níunda sæti.

Íslendingaliðin með sigra í Danmörku
Í Danmörku unnu tvö Íslendingalið flotta sigri. OB setti tóninn svo sannarlega í byrjun gegn Vejle í úrvalsdeildinni. Þar var staðan orðin 3-0 eftir átta mínútur.

Aron Elís Þrándarson, sem er ekki í landsliðshópnum, spilaði allan leikinn á miðjunni hjá OB, en hann endaði 6-0. OB er í fimmta sæti deildarinnar.

Þá unnu lærisveinar Freys Alexanderssonar í Lyngby 0-2 sigur á Fredericia í B-deildinni. Sævar Atli Magnússon kom inn á sem varamaður hjá 70. mínútu fyrir Lyngby, sem er í öðru sæti, einu stigi frá toppnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner