Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 01. október 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Horfir til fyrirmyndarinnar Hannesar - „Alltaf stigið sterkari upp"
Sindri í leik með Keflavík í sumar.
Sindri í leik með Keflavík í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflavíkur, fékk nokkra gagnrýni fyrir frammistöðu sína gegn ÍA í lokaumferð Pepsi Max-deildarinnar á dögunum.

Meðal annars gagnrýndi Hjörvar Hafliðason hann í hlaðvarpinu Dr Football. Sindri átti að gera betur í fyrsta marki ÍA, sem var upphafið að endurkomu þeirra. Keflavík náði 2-0 forystu en leikurinn endaði 3-2 fyrir ÍA. Það varð til þess að ÍA hélt sæti sínu í deildinni og HK féll.

„Mér finnst ég persónulega hafa átt mjög fínt mót. Ég hef ekki gert mörg mistök, en mistökin komu á slæmum tíma. Þetta var bensín á eldinn hjá ÍA," sagði Sindri í samtali við Fótbolta.net.

„Auðvitað á maður skilið að fá gagnrýni ef maður er ekki standa sig, og maður verður að taka henni. Flestallt er þetta uppbyggilegt. Hjörvar er bara HK-ingur og þetta hafði mikil áhrif á HK þegar upp var staðið. Það á heilmikið eftir að gerast. Við fáum á okkur tvö mörk í viðbót þar sem við hefðum átt að gera betur."

„Ég ætla að hugsa um fyrirmyndina mína í þessu - Hannes Þór Halldórsson - sem hefur gert mistök og alltaf stigið sterkari upp úr þeim. Það er mitt markmið. Ég tek allri gagnrýni og reyni að bæta mig."

Davíð ekki í U21 landsliðinu
Sindri var jafnframt spurður út í það að Davíð Snær Jóhannsson, liðsfélagi hans í Keflavík, væri ekki í æfingahópi U21 landsliðsins sem má sjá hérna.

„Ég er ekki búinn að renna almennilega yfir þennan hóp, en ég tók eftir því að Davíð Snær er ekki þarna. Það er orðið rosalega mikið af atvinnumönnum og það er orðin rosaleg krafa um að þú sért jafnvel að spila í atvinnumennsku til að komast í þessi landslið. Davíð er að spila á miðjunni hjá okkur og hann er oft að lenda í því að spila gegn þremur miðjumönnum. Hann hefur gert það rosalega vel miðað við að hann sé fæddur 2002. Hann á framtíðina fyrir sér. Hans leið liggur upp á við," sagði Sindri um það.

Keflavík og ÍA eigast aftur við á morgun, en í þetta sinn í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Leikurinn fer fram á Akranesi og veðrur flautað til leiks klukkan 12:00.

Sjá einnig:
Léttist um sjö kíló og líður betur - „Finn það núna að sénsinn er ekki farinn"
„Rosalega sérstakur tími, en við ætlum að elska þennan tíma"
Athugasemdir
banner