Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   fös 01. október 2021 23:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Rosalega stoltur af Ísak - Útskýrir af hverju FCK var betra skref en Wolves
Rétt skref að fara til FCK á þessum tímapunkti.
Rétt skref að fara til FCK á þessum tímapunkti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak með sínu fólki eftir leik.
Ísak með sínu fólki eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klesstann!
Klesstann!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þarf að sýna sig og sanna.
Þarf að sýna sig og sanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson gekk í raðir FC Kaupmannahafnar frá IFK Norrköping á lokadegi félagaskiptagluggans. Ísak hefur spilað nokkra leiki fyrir FCK og skoraði á dögunum sitt fyrsta mark fyrir danska stórliðið.

Ísak er átján ára miðjumaður sem hefur verið í A-landsliðinu síðasta árið eða svo. Hann var í gær valinn í landsliðshópinn sem kemur saman í næstu viku fyrir leiki í undankeppni HM. Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, er faðir Ísaks. Fréttaritari ræddi við Jóa Kalla á dögunum og spurði hann út í Ísak.

Frábært skref að taka á þessum tímapunkti á ferlinum
Hvernig líst þér á þessi skipti hans til FCK?

„Mér líst bara frábærlega, þótt þetta hafi skeð mjög hratt undir lok gluggans þá hefur FCK fylgst með Ísak frá því hann fór til Norrköping og menn þar hafa alltaf haft trú á honum. Það er ánægjulegt að hann skyldi taka þetta skref því þetta er klárlega stórt skref upp á við," sagði Jói Kalli.

„Allt sem snýr að umgjörð, aðstöðu til æfinga og slíkt, er eins og hjá mörgum stærstu félögum Evrópu. Það er eitthvað sem Ísak vildi komast í. Hann vildi fá að spila í Evrópukeppni og líka umkringja sig með toppleikmönnum sem hann getur lært af."

„Hjá FCK er hann kominn á stað þar sem hann getur haldið áfram að bæta sig sem leikmaður, þarna er stórt tækifæri til að gera það. Þess vegna leist honum mjög vel á þetta og ég var alveg sammála því að þetta væri frábært skref að taka á þessum tímapunkti á ferlinum."


Miðlar reynslunni en Ísak tekur sínar ákvarðanir
Ert þú mikið að leiðbeina honum þegar kemur að fótboltanum og næstu skrefum á ferlinum?

„Við eigum í mjög nánu sambandi og höfum rætt um fótbolta alveg frá því að hann gat talað. Hvort sem það er minn ferill eða hans ferill, Liverpool eða United, þá tölum við mjög mikið saman um fótbolta."

„Ég reyni að leiðbeina honum en hann er auðvitað sjálfstæður einstaklingur og þarf alltaf að taka sína ákvörðun. Hann er hörkuklókur og þetta hefur gengið mjög vel hjá honum hingað til. Hann er rosalega samviskusamur og duglegur."

„Það er svona aðalmálið en auðvitað eru fullt af atriðum á mínum atvinnumannaferli sem ég hef lært af reynslunni. Þegar maður horfir til baka gerði maður fullt af mistökum og ég reyni eins og ég get að miðla þeim til hans og koma í veg fyrir að hann geri sömu mistök og ég. Það er dýrmæt reynsla að hafa."

„Ísak er sinn eiginn karakter og hann þekkir alveg leiðina á toppinn, veit hvað hann þarf að gera til að ná langt. Það er allt í hans höndum en ég reyni að styðja eins mikið við bakið á honum og hægt er."


Úrvalsdeildin þarf að bíða - Þarf að sýna sig og sanna
Ísak var sterklega orðaður við Wolves. Af hverju er FCK betra fyrir hann en að fara til Wolves?

„Það var spennandi verkefni í gangi þegar Nuno Espirito Santo var með Úlfana. Það er ekkert leyndarmál að þeir sýndu honum gríðarlega mikinn áhuga."

„Rétta skrefið á ferlinum var þetta að fara til FCK, honum liggur ekkert á að fara í ensku úrvalsdeildina. Hann hefur nægan tíma til að komast þangað, hann þarf að halda áfram að sýna sig og sanna í dönsku úrvalsdeildinni."

„Vonandi heldur hann áfram að þróa sig sem leikmann og nær sínum markmiðum að spila í bestu deildum Evrópu. Hann þarf að vera þolinmóður og sýna því skilning að hann getur ekki tekið alltof stórt skref í einu. Úrvalsdeildin þarf að bíða, einbeitingin núna fer í að sanna að hann eigi skilið að spila fyrir FCK."


Frábær stund fyrir okkur fjölskylduna
Hvernig var að sjá soninn spila landsleik á Laugardalsvelli?

„Það var náttúrulega frábært, maður getur ekki verið annað en stoltur. Það er gaman að sjá hann vera kominn þetta nálægt liðinu þetta ungur, hann hefur líka verið að byrja leiki."

„Ég er rosalega stoltur að fylgjast með honum og hvernig hann hefur þroskast á mjög stuttum tíma eftir að hann flytur að heiman fimmtán ára. Hvernig hann hefur þróast sem manneskja og leikmaður á þessum tveimur árum er eitthvað sem ég er mjög stoltur af."

„Maður fyllist enn meira stolti þegar maður sér frumburðinn spila fyrir Íslands hönd, geta farið á Laugardalsvöll og séð hann syngja þjóðsönginn áður en hann svo spilar fyrir þjóðina. Það var frábær stund fyrir okkur fjölskylduna, við vorum rosalega stolt af því að sjá hann spila,"
sagði Jói Kalli að lokum.
Athugasemdir
banner
banner