sun 01. nóvember 2020 20:44
Ívan Guðjón Baldursson
Auba: Arteta er að gera frábæra hluti og við verðum að fylgja honum
Mynd: Getty Images
Pierre-Emerick Aubameyang fyrirliði Arsenal gerði eina mark leiksins í 0-1 sigri gegn Manchester United fyrr í kvöld.

Markið endaði nokkuð langa markaþurrð Aubameyang sem hefur átt í erfiðleikum með að setja knöttinn í netið í undanförnum leikjum. Hann var tekinn í viðtal eftir sigurinn gegn Man Utd og segist vera spenntur fyrir framtíð Arsenal undir stjórn Mikel Arteta.

„Þetta var mjög stór sigur fyrir okkur, liðið stóð sig frábærlega og það er mjög gott að vinna hérna eftir langan tíma án sigurs. Við fengum mikið af færum og okkur leið eins og við yrðum að skora. Þegar við fengum vítaspyrnuna var ég öruggur því við höfum æft vítin mjög mikið á æfingum," sagði Aubameyang.

„Við höfum vitað það frá upphafi að við verðum að treysta á Mikel og allt ferlið sem er í gangi innan liðsins. Mikel er að gera frábæra hluti og við verðum að fylgja honum."

Bernd Leno, markvörður Arsenal, tók í svipaða strengi.

„Þetta er mjög langt ferli sem við erum í og það er gríðarlega mikil vinna framundan. Við höfum átt marga góða leiki en líka nokkra sem voru ekki nógu góðir. Það mikilvægasta er að halda sér á jörðinni og halda áfram að bæta sig."
Athugasemdir
banner
banner
banner