Inter á eftir Guehi - Man Utd sýnir miðjumanni Chelsea áhuga - Stórlið sýna miðjumanni Lille áhuga
   lau 01. nóvember 2025 22:04
Ívan Guðjón Baldursson
England: Liverpool aftur á sigurbraut
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Liverpool 2 - 0 Aston Villa
1-0 Mohamed Salah ('45+1)
2-0 Ryan Gravenberch ('58)

Englandsmeistarar Liverpool eru komnir aftur á sigurbraut eftir svakalega taphrinu síðustu vikur.

Lærlingar Arne Slot tóku á móti Aston Villa í kvöldleik ensku úrvalsdeildarinnar og höfðu betur eftir líflegan leik sem bauð þó ekki upp á mikið af góðum marktækifærum.

Liverpool var sterkari aðilinn en átti erfitt með að skapa sér færi þar sem sóknarleikurinn var ekki upp á marga fiska. Hugo Ekitike kom boltanum í netið undir lok fyrri hálfleiks en ekki dæmt mark vegna rangstöðu og skömmu síðar tók Mohamed Salah forystuna eftir skelfileg mistök í varnarleik Villa.

Emiliano Martínez ætlaði að senda boltann á samherja en misreiknaði sig og gaf beint á Salah sem var mættur í pressuna. Egyptinn þakkaði fyrir sig með að skora í opið mark.

Ryan Gravenberch tvöfaldaði forystuna í síðari hálfleik með einföldu marki sem kom eftir markspyrnu hjá Aston Villa. Virgil van Dijk skallaði boltann til Cody Gakpo, sem kom honum á Gravenberch og breytti skot hans um stefnu af Pau Torres áður en boltinn fór í netið.

Aston Villa reyndi að svara fyrir sig og komst í góðar stöður en tókst ekki að skapa sér álitleg færi. Liverpool stóð að lokum uppi sem sigurvegari, 2-0.

Þetta er kærkominn sigur fyrir Liverpool sem hafði tapað fjórum úrvalsdeildarleikjum í röð fyrir sigurinn í kvöld og sex leikjum af síðustu sjö í öllum keppnum.

Liverpool er í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 umferðir, sjö stigum á eftir toppliði Arsenal.
Athugasemdir
banner
banner