Sænski framherjinn Viktor Gyökeres fór meiddur af velli í hálfleik þegar Arsenal lagði nýliða Burnley að velli í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Gyökeres skoraði fyrra mark leiksins í 0-2 sigri og var skipt af velli fyrir Mikel Merino í leikhlé.
„Þetta var einn af bestu hálfleikum sem Viktor hefur spilað frá því að hann kom til Arsenal. Hann var frábær í dag en við þurftum að skipta honum af velli," sagði Mikel Arteta þjálfari eftir sigurinn.
„Hann fann fyrir einhverju og við skiptum honum út til að taka engar áhættur. Við erum að búast við að þetta séu smávægileg vöðvameiðsli.
„Hann var frábær í dag, hann var öflugur í pressunni, lét finna sig á góðum svæðum og var snyrtilegur á boltann. Hann ógnaði alltaf hlaupinu innfyrir varnarlínuna og tengdi spilið okkar mjög vel saman. Hann var virkilega góður í dag. Það er synd að hann hafi þurft að koma af velli."
Spænski miðjumaðurinn Martín Zubimendi hefur verið stórkostlegur frá komu sinni til Arsenal í sumar en hann þurfti einnig að fara af velli í sigrinum gegn Burnley.
„Zubi bað um skiptingu og við verðum að bíða og sjá hversu alvarlegt það er. Við erum líka að búast við að þetta séu vöðvameiðsli hjá honum."
Arteta vonast til að Zubimendi og Gyökeres bætist ekki við meiðslalistann sem inniheldur nú þegar Martin Ödegaard, Noni Madueke, Gabriel Jesus, Gabriel Martinelli og Kai Havertz.
Athugasemdir



