Júlíus Magnússon og Sveinn Aron Guðjohnsen voru báðir með sigurmark í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar í dag.
Sveinn Aron skoraði sigurmark Sarpsborg úr vítaspyrnu í uppbótartíma í 2-1 sigri á Tromsö.
Hann valdi sér ágætis tíma til að skora fyrsta mark sitt fyrir norska félagið, en yngsti bróðir hans, Daníel Tristan Guðjohnsen, gerði einmitt þrennu fyrir Malmö fyrr í dag.
Sarpsborg hafnaði í 9. sæti deildarinnar með 37 stig.
Júlíus Magnússon, sem er nú ekki þekktur fyrir að skora mörg mörk, gerði sigurmark Fredrikstad í 1-0 sigrinum á Sandefjord. Stefán Ingi Sigurðarson var í byrjunarliði Sandefjord. Fredrikstad hafnaði í 6. sæti með 51 stig á meðan Sandefjord hafnaði í 10. sæti með 34 stig.
Hilmir Rafn Mikaelsson lék allan leikinn fyrir Kristiansund sem tapaði fyrir Rosenborg, 4-0. Kristiansund lenti í 11. sæti með 34 stig.
Anton Logi Lúðviksson var í byrjunarliði Haugesund sem vann Odd, 2-1. Haugesund þarf að fara í umspil til að halda sæti sínu í deildinni, liðið mætir Moss.
Brynjar Ingi BJarnason og Viðar Ari Jónsson byrjuðu báðir hjá Ham/Kam sem tapaði fyrir KFUM Oslo, 2-0. Ham/Kam hafnaði í 12. sæti með 33 stig og rétt náði að bjarga sér frá umspili,
Landsliðsmaðurinn Logi Tómasson var þá mögulega að spila sinn síðasta leik fyrir Strömsgodset sem vann Molde, 1-0. Logi hefur verið orðaður við lið í stærri deildum og útlit fyrir að hann taki skrefið um áramótin.
Róbert Orri Þorkelsson og hans menn í Kongsvinger eru úr leik í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildina. Liðið tapaði fyrir Moss, 3-2, í dag en Róbert sat allan tímann á bekknum.
Kristian Nökkvi í byrjunarliði Ajax
Kristian Nökkvi Hlynsson var í byrjunarliði Ajax sem vann NEC Nijmegen, 2-1, í hollensku úrvalsdeildinni.
Íslendingurinn fór af velli í hálfleik en Ajax er í öðru sæti með 32 stig, sjö stigum frá toppliði PSV.
Adam Ægir Pálsson kom inn af bekknum hjá Perugia sem gerði 2-2 jafntefli við Sestri Levante í ítölsku C-deildinni. Perugia er í 13. sæti B-riðils með 19 stig.
Hákon Arnar Haraldsson spilaði hálftíma í 2-2 jafntefli Lille gegn Montpellier í frönsku úrvalsdeildinni. Hákon er að snúa til baka úr meiðslum, en hann og félagar hans eru í 4. sæti með 23 stig.
Mikael Neville Anderson lék allan leikinn er AGF gerði 1-1 jafntefli við Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni. AGF er með 28 stig í 4. sæti.
Elías Rafn Ólafsson var þá ekki í hópnum hjá Midtjylland sem vann Vejle, 3-0.
Daníel Leó Grétarsson og félagar í SönderjyskE unnu Lyngby, 2-0, í Íslendingaslag í dönsku úrvalsdeildinni.
Sævar Atli Magnússon var ekki með Lyngby í dag og þá fór Daníel af velli undir lok leiks.
Sönderjyske er í 10. sæti með 16 stig en Lyngby í sætinu fyrir neðan með 10 stig.
Athugasemdir