Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 02. maí 2020 22:00
Ívan Guðjón Baldursson
Balotelli: Fótboltaheimurinn er ljótur
Mynd: Getty Images
Mario Balotelli, samherji Birkis Bjarnasonar hjá Brescia, var í beinni útsendingu á Instagram og ræddi um erfiðleikana sem fylgja því að vera atvinnumaður í knattspyrnu á hæsta stigi.

Balotelli er 29 ára gamall og hefur meðal annars spilað fyrir Inter, Milan, Manchester City og Liverpool á ferlinum.

„Það er erfitt að vera knattspyrnumaður. Þá á ég ekki við fjárhagslega séð, en almennt séð er það mjög erfitt. Fótboltaheimurinn er ljótur, á hæsta stigi verður þú að vera með sterkan karakter. Það eru margir sem týna sjálfum sér," sagði Balotelli.

„Ég er heppinn að vera með tvær fjölskyldur á bakvið mig sem elska mig. Ég er mjög þakklátur fyrir það, fjölskyldan bjargaði mér. Það er ótrúlega mikil pressa sem fylgir því að vera atvinnumaður í knattspyrnu. Móðir mín vildi að ég myndi fara í aðra íþrótt. Ég æfði körfubolta, júdó og frjálsar íþróttir en að lokum valdi ég fótboltann."

Balotelli hefur unnið efstu deild og bikar á Ítalíu og Englandi og þá var hann valinn í lið ársins á EM 2012 þar sem hann lék lykilhlutverk er Ítalía komst alla leið í úrslit.

„Ég hef unnið mikið á ferlinum. Ég lít á sjálfan mig sem hæfileikaríkan leikmann. Stundum sýni ég hæfileikana, stundum ekki. Til að verða að frábærum leikmanni þarf ég að leggja meira á mig.

„Að spila fyrir ítalska landsliðið er mikilvægast fyrir mig. Það er eitt það fallegasta og tilfinningaþrungnasta sem þú upplifir í þessum heimi."


Balotelli hefur ekki fundið taktinn með Brescia og þarf að standa sig betur til að gera tilkall til landsliðssætis fyrir EM 2020, sem verður haldið á næsta ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner