sun 02. maí 2021 03:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Bandaríkin: Gummi Tóta átti þátt í rabona marki Castellanos
Gummi Tóta
Gummi Tóta
Mynd: Getty Images
Arnór Ingvi
Arnór Ingvi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslendingaliðin New York City og New England Revolution unnu sigra í bandarísku MLS-deildinni í nótt.

Guðmundur Þórarinsson lék fyrstu 75 mínúturnar í liði NYC gegn Philadelphia Union og Arnór Ingvi Traustason lék fyrstu 72 mínúturnar hjá New England í 2-1 heimasigri gegn Atlanta.

Gummi átti þátt í öðru marki NYC í leiknum. Hann átti fyrirgjöf fyrir mark Union á 65. mínútu sem skölluð var hátt upp í loftið af varnarmanni. Annar varnarmaður virtist svo gera tilraun til þess að koma boltanum til baka á markvörðinn sinn en sú tilraun mislukkaðist illa og sóknarmaðurinn Valentin Castellanos komst í milli og skoraði með rabona skoti í autt markið. Markið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Lokatölurnar í leiknum voru 0-2 fyrir gestina frá New York. Íslendingaliðin eru þessa stundina í 1. og 2. sæti Austurdeildarinnar. New England er með sjö stig eftir þrjá leiki og NYC með sex.

Í bandarísku NWSL Áskorenda bikarkeppninni lék Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir allan leikinn með Orlando Pride í markalausu jafntefli gegn North Carolina Courage. Bikarkeppnin er leikin fyrir deildarkeppnina sem hefst eftir tvær vikur. Orlando Pride endar í 3. sæti Austurriðils og fer ekki í úrslitaleikinn.

Bandaríski landsliðsmaðurinn Aron Jóhannsson var þá kominn aftur í byrjunarlið Lech Poznan sem tapaði 1-2 gegn Stal Mielec í pólsku deildinni í gær. Aron lék fyrstu 64 mínútur leiksins. Síðasti byrjunarliðsleikur Arons á undan leiknum í gær var gegn Pogon Szczecin þann 7. mars.

Staðan var 0-0 þegar Aron fór af velli. Lech komst yfir á 80. mínútu en Stal stal sigrinum undir lokin. Jöfnunarmarkið kom á 89. mínútu þegar leikmaður Lech gerði sjálfsmark og sigurmarkið kom svo á sjöundu mínútu uppbótartíma. Lech er í 10. sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.


Athugasemdir
banner
banner
banner