sun 02. maí 2021 12:01
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ef eitthvað spennandi kemur upp sem hann væri sáttur við"
Daði Freyr
Daði Freyr
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það hafa heyrst nokkrar sögur um að markvörðurinn Daði Freyr Arnarsson sé á leið í burtu frá FH á láni út tímabilið.

Daði er varamarkvörður fyrir Gunnar Nielsen hjá FH og hefur hann verið orðaður við KA, Vestra og Þór á síðustu dögum. Í gær sagði Tómas Þór Þórðarsson, annar af þáttarstjórnendum útvarpsþáttarins Fótbolta.net, frá því að hann hefði fengið sendar upplýsingar um að Daði væri á leið í Vestra.

Daði er uppalinn fyrir vestan og spilaði með BÍ/Bolungarvík tímabilið 2015 og Vestra tímabilin 2017 og 2018. Hann varði mark FH í fimmtán leikjum árið 2019 en einungis einum deildarleik í fyrra.

Daði verður 23 ára í haust og lék á sínum tíma fimmtán unglingalandsleiki. Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH, ræddi eftir leik við Stefán Martein Ólafsson sem skrifaði um leikinn fyrir Fótbolta.net. Stefán spurði Davíð út í Daða.

Lestu um leikinn: Fylkir 0 - 2 FH

„Það er ekkert ákveðið með það (að hann sé að fara), hann er búinn að vera frábær í vetur hjá okkur og okkar hugsun var kannski aðeins sú að hann væri kannski kominn á þann stað að hann þyrfti að fara spila stabílt, annað hvort í efstu deild eða 1. deild."

„Það er ekkert komið á hreint með það, þetta er möguleiki sem er verið að skoða og ég held að hann hefði haft gott af því en ef ekki þá heldur hann bara áfram að berjast um markmannsstöðuna við Gunna,"
sagði Davíð.

Er FH að leitast eftir því að lána hann frá félaginu?

„Já, það er alveg möguleiki á því, ef eitthvað spennandi kemur upp sem hann væri sáttur við, að við myndum lána hann," sagði Davíð. Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.

Atli Gunnar Guðmundsson var á bekknum hjá FH gegn Leikni í æfingaleik um síðustu helgi. Líklegt þykir að Atli Gunnar semji við FH ef Daði fer í burtu á láni.
Davíð Þór: Hefðum viljað bæta við þriðja og fjórða markinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner