sun 02. maí 2021 07:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hákon í Gróttu þangað til í júlí - „Erum mjög stolt af honum"
Lengjudeildin
Hákon Rafn Valdimarsson.
Hákon Rafn Valdimarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það var tilkynnt á föstudag að Grótta væri búið að selja markvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson til Elfsborg í Svíþjóð. Hann mun fara þangað í sumar en byrjar tímabilið með Gróttu.

Hákon er 19 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann verið aðal­markvörður Gróttu und­an­far­in þrjú tímabil. Hákon spilaði sinn fyrsta leik fyrir Gróttu árið 2017 en hann á að baki 61 leik fyrir félagið og hefur leikið í þremur efstu deildum með liðinu. Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, telur að saga markvarðarins efnilega sé einstök.

„Hákon verður með okkur fram í júlí. Hans saga hefur verið með ólíkindum. Þetta er einstakt með svona ungan markvörð. Hann var 15-16 ára þegar hann var að spila í 2. deild með Gróttu og var svo að spila í 1. deild, og spilaði náttúrulega í úrvalsdeild í fyrra. Hann er með einhverja 70-80 leiki í meistarflokki."

„Ég hef talað við markvarðarþjálfarann hjá Elfsborg og við erum sammála um að þótt hann sé ungur í aldri þá er hann ekki ungur sem markvörður. Hann er kominn með gríðarlega reynslu. Hann er tvítugur og með alla þessa reynslu. Þetta er einsdæmi myndi ég halda, alla vega mjög fáheyrt. Hann er frábær íþróttamaður sem ætlar að ná langt. Ég hef fulla trú á því að hann verði enn betri þegar hann er kominn út og hefur sinn atvinnumannaferil."

„Við Íslendingar erum með frábæra unga markverði eins og Patrik og Elías út í Danmörku. Þessir strákar upplifðu aldrei það sama og Hákon hér heima, að hafa spilað í 2. deild, 1. deild og úrvalsdeild og ekki orðnir tvítugir. Þetta gæti verið heimsmet, það þarf að grafa það upp. Við erum mjög stolt af Hákoni og að hann hafi farið þessa leið með Gróttu. Hann er gríðarleg fyrirmynd, það má ekki gleyma því. Líka bara fyrir það hvernig við erum að gera þetta. Það má líka segja það um Orra Stein Óskarsson sem fer þessa sömu leið og er núna að spila fyrir eitt stærsta félag Norðurlanda (FCK) og er að standa sig frábærlega. Hann kemur úr unglingastarfi Gróttu og Hákon kemur úr unglingastarfi Gróttu."

Hægt er að lesa viðtal við Gústa með því að smella hérna.

Jón Ívan Rivine var í markinu hjá Gróttu gegn Þrótti Vogum í Mjólkurbikarnum í gær. Líklegt er að hann verði aðalmarkvörður í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner