Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 02. maí 2021 11:12
Fótbolti.net
KA í leit að markmanni - „Segir sig eiginlega sjálft"
Kristijan Jajalo er úlnliðsbrotinn
Kristijan Jajalo er úlnliðsbrotinn
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Steinþór á leið út á völl í gær.
Steinþór á leið út á völl í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA er í leit að markverði eftir að Kristijan Jajalo meiddist í síðustu viku, Jajalo verður frá í 2-3 mánuði.

Steinþór Már Auðunsson varði mark KA í gæri. Stubbur, eins og Steinþór er oftast kallaður, er uppalinn hjá KA og var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild. Hann hefur verið hjá Magna undanfarin ár en skipti í KA í vetur.

Á bekknum var svo Ívar Arnbro Þórhallsson sem fæddur er árið 2006. KA gerði markalaust jafntefli gegn HK í gær.

Það kom fram í hlaðvarpsþætti hér á Fótbolti.net á föstudag að KA ætlaði að fá inn markvörð. Þeir Brynjar Ingi Bjarnason og Hallgrímur Mar Steingrímsson ræddu við Sæbjörn Steinke í sérstökum KA-upphitunarþætti.

„Það segir sig eiginlega sjálft. Næsti markmaður inn er í yngri flokkum og hefur litla sem enga reynslu af meistaraflokksbolta. Þannig við þurfum að fá inn markmann, hvort sem það er markmaður í markið fyrir Stubb eða einhvern til að styðja við hann, ég veit það ekki. Auðvitað munum við örugglega leita okkur að markmanni og fá markmann," sagði Grímsi.

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, tók í sama streng í viðtali eftir leikinn gegn HK í gær.

„Ég heyrði að þetta væru þrír mánuðir (fjarvera hjá Jajalo) svo við erum að skoða hvort við getum fengið nýjan markmann þar sem við erum bara með ungan og efnilegan strák sem er í 3. flokki á bekknum. Þannig ef það gerist eitthvað fyrir Stubb þá erum við í smá veseni. Stubbur er hrikalega flottur og hélt hreinu í dag og bjargaði meistaralega í dauðafærinu sem HK fékk. Það mætti segja að hann sé ástæðan fyrir að við förum með eitt stig heim í dag," sagði Addi við Egil Sigfússon, fréttaritara Fótbolta.net, í gær.

„Við erum að skoða að fá annað hvort kantmann eða framherja en það er ekki auðhlaupið að því í þessu Covid veseni," sagði Addi einnig.

Egill valdi Stubb mann leiksins í gær en hann varði dauðafæri frá Stefan Alexander Ljubicic í tilþrifalitlum leik.

Hlaðvarpsþáttinn, viðtalið við Adda og viðtal við Stubb má hlusta á og sjá hér að neðan.

Lestu um leikinn: HK 0 - 0 KA
Arnar Grétars: Heilt yfir sanngjarnt
Steinþór Már: Verið draumur minn lengi að spila með KA í efstu deild
Binni og Grímsi í KA-Special - „Sterkasta KA-liðið by a mile"
Athugasemdir
banner
banner