Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   sun 02. maí 2021 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Svo getur þú sett næstu sex, sjö lið í pott og dregið"
Lengjudeildin
Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur.
Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík er spáð fjórða sæti í sumar.
Grindavík er spáð fjórða sæti í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Þorsteins lagði skóna á hilluna í bili.
Gunnar Þorsteins lagði skóna á hilluna í bili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Grindavík á undirbúningstímabilinu.
Úr leik hjá Grindavík á undirbúningstímabilinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Ólafur Brynjólfsson og Sigurbjörn, þjálfarar Grindavíkur.
Ólafur Brynjólfsson og Sigurbjörn, þjálfarar Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það hefði ekki komið mér á óvart ef okkur hefði verið spáð öðru sæti eða sjöunda sæti," segir Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Fótbolta.net.

Grindavík er spáð fjórða sæti í Lengjudeildinni í sumar.

Sigurbjörn býst við gríðarlegra jafnri deild í sumar, fyrir neðan ÍBV sem hann býst við að verði á toppnum.

„Vestmannaeyjar eru klárlega liðið sem þarf að klára, það er engin spurning. Svo getur þú sett næstu sex, sjö lið í pott og dregið. Þetta er svo jafnt. Þetta eru bara mjög jöfn lið, þetta er spurning um dagsform og að halda mönnum heilum. Spurning um það hvernig menn ná að spila úr því sem þeir hafa. Vestmannaeyjar eru með fallbyssurnar í deildinni og eiga að ganga frá þessu," segir þjálfari Grindvíkinga.

„Liðin sem komu upp eru mjög sterk, vanalega er það ekki þannig að liðin sem koma upp geta blandað sér í einhverja toppbaráttu en það sýnist mér vera möguleiki núna. Svo erum við með mjög flott lið. Þau lið sem er talað um í neðri hlutanum, það eru mjög fín og frambærileg lið. Ef maður horfir á þessi fimm neðstu í spánni, þá eru það mjög frambærileg lið sem geta unnið alla. Ég sé þetta ótrúlega jafnt og þegar maður lítur á leikjaprógrammið þá skiptir það engu hvar maður lítur á það, það er er alltaf erfitt. Við byrjum gegn langsterkasta liðinu, ÍBV, svo er mjög erfiður leikur gegn Þór og klassa Fjölnislið. Sjáum liðið sem er spáð 12. sæti Ólafsvík, þeir eru mjög fínir. Þetta er ótrúlega jafnt."

Á leið í sitt annað tímabil með Grindavík
Sigurbjörn er á leið í sitt annað tímabil með Grindavík. Sigurbjörn var aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá Val þar áður en þeir skiluðu liðinu tveimur Íslandsmeistaratitlum og tveimur bikarmeistaratitlum. Hann þjálfaði einnig Hauka í Hafnarfirði.

„Það er spennandi og gaman að þetta sé að fara að byrja. Síðasta eitt og hálft ár er búið að vera skrítinn tími, þannig lagað. Þetta er búið að vera mjög sérstakt," segir Bjössi en síðasta tímabil, hans fyrsta í Grindavík, litaðist mjög af Covid og var tímabilinu slaufað snemma.

„Það sem stendur upp úr frá þessum tíma - hvað get ég sagt? Maður hefði viljað hafa eðlilegan fótbolta og eðlilegan takt í öllu dæminu. Þetta er aðlögun, við getum sagt start-stopp, start-stopp. Frá því ég byrjaði að þjálfa Grindavík hefur maður lifa einn dag í einu. Maður getur orðað það þannig: Start-stopp og einn dagur í einu."

„Þetta reynir á, það er alveg á hreinu. Maður verður að huga að mörgu í þessu þannig að leikmenn verði ekki alveg bilaðir. Að fá ekki að stunda íþróttina sem þú vilt er erfitt. Það eru allir í þessu til að spila eðlilegan fótbolta. Þetta er ekkert væl, það eru allir í því sama," segir Bjössi en það er vonandi að það verði engin pása gerð á mótinu í sumar. Það er farið að horfa til bjartari tíma.

Skemmtilegasta deildin í fyrra
Lengjudeild karla var gríðarlega skemmtileg í fyrra, jöfn og skemmtileg. Sigurbjörn býst við að hún verði skemmtilegri í ár.

„Ég held að þetta verði skemmtilegri deild en í fyrra. Það eru nánast allir leikir fyrir alvöru leikir. Þetta var langskemmtilegasta deildin í fyrra, það var engin spurning - með yfirburðum."

Það hefur gengið vel í Grindavík í vetur þrátt fyrir ákveðið stopp-start fyrir stuttu.

„Veturinn hefur gengið þokkalega. Við erum fáliðaðir, við erum ekki með stóran hóp en við erum með fína menn. Menn hafa lagt mikið á sig og ég er ánægður með það. Menn eru jákvæðir og drengirnir hafa verið flottir."

Breytingar á hópnum
Það hafa verið nokkrar breytingar á hópnum í vetur. Lykilmenn síðustu ára, Alexander Veigar Þórarinsson og Gunnar Þorsteinsson eru hættir. Alexander spilar í 4. deild í sumar og Gunnar fór í krefjandi nám erlendis. Grindavík hefur sótt sterka leikmenn í þeirra stað.

„Það hefur verið markmið okkar að fá inn mjög fína menn inn ef við erum að fá einhverja inn. Þess vegna höfum við ekki verið að hrúga inn mönnum. Við höfum fengið fáa en fína. Að sama skapi höfum við misst gríðarlega öfluga leikmenn og nokkuð marga. Það segir sig sjálft að það er stórt að missa Gunna Þorsteins. Hann var fyrirliði okkar. Það er erfitt að finna mann í staðinn en við reynum og höldum áfram. Við höfum ekki bara misst Gunna, nokkuð marga öfluga pósta. Við komum aðeins öðruvísi leiks til sumar."

„Það getur alveg gerst að það komi fleiri menn inn. Þetta er lifandi skjal, hópurinn. Ef það bjóðast góðir leikmenn sem henta okkar hugmyndafræði þá erum við alltaf opnir fyrir því að bæta við. Við gerum það bara ef við erum sannfærðir um að leikmaðurinn geti komið inn í lítinn og þéttan hóp og gert flotta hluti með okkur."

Bjarni Ólafur Eiríksson, fyrrum landsliðsmaður, spilaði leik með Grindavík á undirbúninstímabilinu.

„Við Bjarni erum miklir vinir. Það var fyrr á undirbúningstímabilinu þar sem við vorum að spila leik og það gekk vel. Hann spilaði þann leik og var glaður með það. Það hefur ekki verið meira en það," segir Bjössi en Bjarni Ólafur er enn án félags.

Hver á að skora mörkin?
Guðmundur Magnússon, Oddur Ingi Bjarnason, Stefán Ingi Sigurðarson og Gunnar Þorsteins skoruðu saman 19 mörk í fyrra. Þeir eru allir farnir. Hver skorar fyrir Grindvíkinga í sumar?

„Ég vona að við fáum mörk úr sem flestum áttum, við fengum það í fyrra og skoruðum mikið. Ef allir leikmenn skora 3-4 mörk þá verð ég mjög ánægður. Það geta allir skorað, blessaður vertu. Við getum skorað úr öllum áttum. Það kæmi mér ekki á óvart ef Aron markvörður myndi skora einhvern tímann með vindi. Við stefnum að því að vera með sem flesta sem geta skorað, eða vilja skora. Það er málið, að vilja og þrá að skora mörk. Það eru ansi margir sem vilja skora og ég er spenntur að sjá menn skora."

Markmið að vera í möguleika
Sigurbjörn fékk að lokum spurninguna: 'Hvað er markmiðið fyrir sumarið?'

„Við getum gert allt hvað það varðar. Markmiðið er að vera í möguleikanum á að gera góða hluti þegar verður farið að telja upp úr kössunum. Það eru tvö sæti sem eru eftirsóknarverð. Mér fannst við vera komnir í góðan gír í fyrra og áttum góða seinni umferð. Markmiðið er að halda því áfram og bæta við. Þá verðum við í bullandi baráttu að fara upp um deild. Það verður allt að ganga upp í þessu því nánast öll lið deildarinnar gera tilkall."

„Ég væri alveg til í 2-3 þrjár vikur í viðbót þar sem við værum að vinna í okkar málum. Maður getur samt ekki beðið eftir að spila. Ég segi bara að við verðum að vera klárir, það er bara þannig. Það er enginn að bíða eftir okkur, við mætum til leiks í fyrsta leik og gerum okkar besta. Þú getur örugglega spurt alla þjálfara og þeir segja nánast fyrir öll tímabil að þeir þurfi 1-2 vikur í viðbót. Við erum klárir, við verðum alltaf ellefu inn á. Við erum klárir í þessa báta og það er mikil tilhlökkun að byrja Íslandsmótið."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner