Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 02. maí 2022 16:02
Elvar Geir Magnússon
Heimild: RÚV 
Leikmaður KA: Rússar hafa lagt heimili mitt í rúst
Oleksiy Bykov í leik með KA.
Oleksiy Bykov í leik með KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úkraínski varnarmaðurinn Oleksiy Bykov gekk í raðir KA eftir að stríðið í heimalandi hans braust út. Þessi 24 ára leikmaður hefur spilað vel í fyrstu tveimur leikjum KA en hann er á lánssamningi frá FK Mariupol.

Mariupol er sú borg sem hefur orðið hvað verst úti í þeim átökum sem nú geysa.

Bykov fór í viðtal við RÚV þar sem hann segist hafa verið í æfingaferð í Tyrklandi þegar hann og félagar hans fengu fregnir af stríðinu.

„Við vorum á flugvellinum í Antalya á leiðinni heim. Þar var okkur sagt að búið væri að fresta fluginu því það væri stríð heima í Úkraínu. Fyrst bara trúði maður því ekki að þetta væri að gerast. Svo varð maður bara tómur í sálinni," segir Bykov við RÚV.

Þegar möguleikinn á að fara til KA gafst höfðu foreldrar hans flúið til Moskvu og eiginkonan til Tékklands. Hann hefur því ekkert farið heim síðan stríðið braust út. Enda segir hann að það sé lítið heim að sækja þar sem Rússar hafi lagt heimili hans í rúst.

Þá hefur hann ekki getað náð sambandi við fjölmarga vini sína í borginni auk þess sem hundurinn hans er týndur. „Það er bara allt farið og búið að skemma allt," segir Bykov.

Hann skrifaði undir lánssamning við KA sem gildir til 30. júní og segir samfélagið á Akureyri hafa tekið sér opnum örmum.

„Ég vill bara fá að þakka fyrir alla þá hjálp sem ég hef fengið allstaðar. Ég tala ekki tungumálið, ég þarf bara að segja hjálp þá fæ ég bara risa hjálp."



Smelltu hér til að horfa á frétt RÚV
Athugasemdir
banner