Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 02. maí 2022 07:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Nýtt áhorfendamet sett í Frakklandi
Sara Björk er á mála hjá Lyon.
Sara Björk er á mála hjá Lyon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var nýtt áhorfendamet sett á kvennaleik í Frakklandi um helgina þegar Lyon og Paris Saint-Germain áttust við í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Áhugi á kvennafótbolta er að aukast í miklum mæli og síðustu vikur hafa áhorfendamet fallið víðs vegar.

Barcelona troðfyllti leikvang sinn bæði gegn Real Madrid og Wolfsburg þar sem rúmlega 90 þúsund manns mættu.

Það mættu 43,254 á leik Lyon og PSG, og er það nýtt met í Frakklandi. Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður íslenska landsliðsins, leikur með Lyon og er hún á leið í sinn annan úrslitaleik í Meistaradeildinni þar sem hennar lið fór með sigur af hólmi í leiknum.

Þessu tengt, þá vakti Sara á dögunum heimsathygli fyrir ummæli sín um leikvang sem íslenska landsliðið á að spila á þegar Evrópumótið fer fram í sumar. Ísland leikur tvo leiki á Manchester City Academy Stadium á mótinu í sumar. Fram kemur á vefmiðli BBC að hann muni aðeins vera með pláss fyrir 4700 manns á EM í sumar. Nú þegar er uppselt á báða leikina sem Ísland spilar á þeim velli.

„Ég veit ekki hvað er í gangi í hausnum á þeim eða hvort þeir eru bara yfirhöfuð eitthvað að fylgjast með því sem er í gangi í kvennafótbolta. Ef að menn gerðu það þá væri bara almenn skynsemi að hafa hlutina öðruvísi. Það er bara vitleysa að þurfa að tala um þetta. Það er svekkjandi. Það gætu hæglega komið 20.000 manns frá Íslandi til að horfa á leikina. Fjölskyldumeðlimir áttu erfitt með að fá miða því þeir seldust bara strax upp," sagði Sara Björk.

Áhuginn er mjög mikill, eins og sást í Frakklandi um helgina.


Athugasemdir
banner
banner
banner