mið 02. júní 2021 08:20
Elvar Geir Magnússon
Munur á Dallas og Dalvík - „Mjög stórt fyrir mig sjálfan"
Icelandair
Brynjar Ingi Bjarnason í leiknum gegn Mexíkó.
Brynjar Ingi Bjarnason í leiknum gegn Mexíkó.
Mynd: Getty Images
Brynjar á landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í gær.
Brynjar á landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar verður í hópnum gegn Færeyjum á föstudag.
Brynjar verður í hópnum gegn Færeyjum á föstudag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hlutirnir hafa gerst afskaplega hratt fyrir Brynjar Inga Bjarnason, 21 árs varnarmann KA á Akureyri, en hann kom óvænt inn í landsliðshóp Íslands og lék sinn fyrsta landsleik í 2-1 tapinu gegn Mexíkó um síðustu helgi.

Miðvörðurinn ungi átti flotta frumraun en leikið var fyrir framan 40 þúsund manns á risaleikvangi í Dallas í Bandaríkjunum. Umhverfi sem Brynjar er ekki vanur, ekki enn allavega, en KA hefur leikið heimaleiki sína á Dalvík í upphafi móts.

„Þetta var mögnuð tilfinning, manni var kastað í djúpu laugina og hefur ekki upplifað svona áður. Þegar maður sá völlinn fyrst var þetta smá sjokk og ég bjóst við að stressið yrði meira. En þegar maður var kominn inn á völlinn og byrjaður að spila þá var maður frekar rólegur og mér leið mjög vel," segir Brynjar.

Hann steig varla feilspor í leiknum, fyrir utan mistök í aðdragandanum að fyrra marki Mexíkó. Hann var ánægður með sína frammistöðu.

„Mér fannst hún mjög góð, kannski fyrir utan þessar tíu sekúndur þegar ég gerði mistök sem maður verður bara að læra af. Yfir allt er ég mjög sáttur með hana."

Fékk aðstoð frá reynslumeiri mönnum
Landsliðshópurinn í þessu verkefni er blandaður af óreyndum mönnum og reynsluboltum. Brynjar segir að þeir eldri og reyndari hafi gefið mikið af sér.

„Mexíkóarnir eru mjög teknískir og hraðir. Ég vil hrósa reynslumeiri mönnum í okkar fyrir að hjálpa mér að komast hratt inn í hlutina, aðlagast og líða vel á vellinum. Það gerði það að verk­um að maður tók ekki eft­ir mikl­um mun, þótt gæðin séu mun meiri," segir Brynjar sem hefur verið einn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar í sumar. Hann ætlar að nota þetta landsliðstækifæri til að bæta sig enn frekar.

„Þetta er mjög stórt fyrir mig sjálfan sem leikmann. Ég er staðráðinn í að taka þetta og nýta hverja einustu mínútu, ekki bara í leikjum heldur líka á æfingum. Það gerist ekki mikið stærra en þetta, að fá sénsinn í A-landsliðinu svona skyndilega. Maður verður að grípa þetta með fullu hugarfari."

Gerði sér ekki væntingar um EM U21
Brynjar var ekki valinn í U21 landsliðshópinn fyrir lokakeppni EM. Stuðningsmenn KA furðuðu sig á því en sjálfum kom Brynjari þetta ekki á óvart.

„Ég sjálfur var á þeim tíma ekki búinn að gera mér þannig væntingar að vera valinn. Ég hafði ekkert verið í hópnum áður og þeir höfðu verið að gera vel á mótinu. Ég bjóst ekki við því að þeir myndu hræra upp í liðinu," segir Brynjar.

Upphaflega var planið að Brynjar, og aðrir leikmenn sem spila á Íslandi, færu ekki með í komandi leiki gegn Færeyjum og Póllandi. Það hefur nú breyst og Brynjar verður í hópnum í Þórshöfn á föstudag.

„Við fengum að vita það á æfingu í gær (mánudag), það var búið að gefa vísbendingar um að það gæti gerst. Maður tekur þessu auðvitað bara fagnandi. Því fleiri leikir sem maður fær, því betra."
Athugasemdir
banner
banner
banner