mið 02. júní 2021 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Sporting gæti misst Goncalves í sumar - Falur fyrir 51 milljón punda
Pedro Goncalves er leikmaður sem vert er að fylgjast með á EM í sumar
Pedro Goncalves er leikmaður sem vert er að fylgjast með á EM í sumar
Mynd: EPA
Portúgalska félagið Sporting Lisbon ætlar að framlengja við Pedro Goncalves, miðjumann liðsins, í sumar til að fyrirbyggja að erlend félög eigi möguleika á því að kaupa hann ódýrt.

Goncalves er 22 ára gamall og uppalinn hjá Braga í Portúgal en hann samdi við Valencia þegar hann var aðeins 16 ára gamall.

Hann var keyptur til Wolves tveimur árum síðar en enska félagið hafði ekki mikið álit á honum og leyfði honum að fara aftur til heimalandsins. Hann samdi við Famalicao þar sem hann náði að blómstra áður en Sporting keypti hann á síðasta ári.

Goncalves varð portúgalskur meistari með Sporting á þessari leiktíð og var hann aðalmaðurinn í sóknarleiknum. Hann skoraði 23 mörk í deildinni og lagði upp fjögur en hann spilar iðulega fyrir aftan framherja eða á hægri vængnum.

Samningur hans við Sporting gildir til 2025 en í honum er klásúla sem leyfir erlendum félögum að kaupa hann fyrir aðeins 51 milljón pund.

Samkvæmt Record þá ætlar Sporting að framlengja samning hans í sumar til að koma í veg fyrir að félög á borð við Liverpool og Manchester United nýti sér þessa klásúlu.

Goncalves er þó ekki talinn hafa áhuga á því að skrifa undir nýjan samning við Sporting. Hann vill reyna fyrir sér á stóra sviðinu og verður Evrópumót landsliða fyrsta verkefni hans á því sviði.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner