mið 02. júní 2021 10:30
Elvar Geir Magnússon
Stefnir á stærra svið en þarf að vera rétt félag á réttum tímapunkti
Icelandair
Jón Dagur á landsliðsæfingu í gær.
Jón Dagur á landsliðsæfingu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur Þorsteinsson er meðal leikmanna sem hefur bæst inn í landsliðshóp Íslands fyrir komandi vináttulandsleiki gegn Færeyjum og Póllandi.

Þessi 22 ára hæfileikaríki sóknarleikmaður spilar fyrir AGF í Danmörku og hjálpaði liðinu að tryggja sér sæti í Sambandsdeild UEFA. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru mörg félög í Evrópu að horfa til Jóns Dags.

„Glugginn er lokaður og ekkert í gangi. Eftir þetta verkefni mun ég skoða það hvort það komi eitthvað skemmtilegt upp eða ekki. AGF kláraði tímabilið vel og ég kláraði tímabilið sjálfur mjög vel. Það komu góðir leikir, sérstaklega í endann," segir Jón Dagur sem á eitt ár eftir af samningi sínum við AGF. Hann er ánægður hjá félaginu.

„Þetta er klúbbur í mikilli uppbyggingu eftir að hafa verið í smá lægð síðustu ár. Deildin er góð og ég mun ekki hoppa í burtu nema það sé eitthvað mjög áhugavert. Mér líður mjög vel í klúbbnum."

En er hann meðvitaður um áhuga frá félögum í stærri deildum?

„Ég hef ekkert pælt í því. Ég held að það hjálpi leikmönnum ekkert að vera að pæla í þessu á miðju tímabili eða í landsliðsverkefni. Maður nýtir kannski sumarið frekar í að skoða hvar maður er staddur. Það er ekkert leyndarmál að maður stefnir á að spila í stærri deild og á stærra sviði en það þarf að vera rétt lið og rétti tímapunkturinn," segir Jón Dagur.

Ísland var að vinna þegar Jón Dagur fór að sofa
Vináttulandsleikurinn gegn Mexíkó var utan landsleikjagluggans og Jón Dagur var í Danmörku þegar hann fór fram. Klukkan var 3 eftir miðnætti á staðartíma þegar leikurinn var flautaður á.

„Leikurinn var helvíti seint í Danmörku og ég náði að horfa á fyrri hálfleikinn. Hann var mjög flottur, gott skipulag. Við vorum yfir þegar ég slökkti og fór að sofa en liðið lúkkaði mjög vel og leikurinn var skemmtilegur," segir Jón Dagur. Voru ekki vonbrigði að vakna svo og sjá að Mexíkó vann 2-1?

„Auðvitað vonaðist maður til þess að liðið næði að halda þetta út en verið var að spila gegn hörkuliði Mexíkó."

Leikur Færeyja og Íslands fer fram í Þórshöfn klukkan 18:45 á föstudagskvöld og verður sýndur beint á RÚV.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner