mið 02. júní 2021 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Stjórnarformaður Man City: Ætlum að kaupa menn í nokkrar lykilstöður
Khaldoon Al Mubarak er alvara og ætlar að halda áfram að kaupa leikmenn
Khaldoon Al Mubarak er alvara og ætlar að halda áfram að kaupa leikmenn
Mynd: EPA
Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City á Englandi, segir að félagið ætli að fjárfesta meira í leikmannahópnum í sumar.

Man City vann ensku úrvalsdeildina og deildabikarinn á þessu tímabili en tapaði í úrslitum Meistaradeildar Evrópu gegn Chelsea, 1-0.

Félagið hefur eytt 870 milljónum punda í leikmannakaup síðustu fimm árin og virðist ekkert lát á því hvað félagið eyðir miklu og er það sannreynt að það hefur engin áhrif á fjárhagsreglur UEFA.

Al Mubarak virðist ekki alveg nógu sáttur með leikmannahópinn og ætlar því að fjárfesta meira í klúbbnum í sumar en hann ætlar að styrkja nokkrar stöður.

„Eitt af því sem ég hef lært síðustu ár er að það þarf að endurnýja reglulega og fá hæfileikaríka leikmenn inn í liðið og þá sérstaklega þegar þú ert að spila á þessu stigi," sagði Al Mubarak.

„Við unnum deildina en það er ekki tími til að slaka á og gera ekkert. Það væru stærstu mistökin. Nú er tíminn til að senda skilaboð og að minna á að við erum ekki sáttir með að vinna bara deildina."

„Við missum mikilvæga goðsögn í Sergio Aguero og það er erfitt að feta í þau fótspor en ég er viss um að við finnum rétta leikmanninn í það verkefni. Það eru aðrar stöður í liðinu sem þarf að fjárfesta í en ekki of margar. Þetta snýst ekki um fjölda heldur um gæði."

„Þetta er stórkostlegur hópur og maður vinnur ekki ensku úrvalsdeildina og kemst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar ef þú ert ekki með þannig hóp og við erum með það. Við munum koma með gæði inn í hópinn í nokkrar lykilstöður,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner