Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 02. júní 2022 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sveitarstjórinn í Liverpool rændur í París - Reifst við Ceferin
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Steve Rotheram er sveitarstjóri Liverpool héraðs og stuðningsmaður Liverpool FC. Hann fékk VIP-miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar frá UEFA og mætti hress til Parísar.


Hann var þó ekki hress þegar komið var til Parísar þar sem hann var neyddur til að klifra yfir grindverk áður en hann var rændur af lúmskum vasaþjófum.

„Þeir stálu símanum, pening, kortum, skilríkjum og miðanum á leikinn. Við fylgdum fyrirmælum yfirvalda sem beindu okkur niður götu en tveir óeirðabílar lögreglunnar lokuðu fyrir hana. Óeirðalögreglan sagði okkur að klifra yfir girðingu til að komast framhjá og til að gera það þurfti ég að taka aðra hendina af jakkanum sem ég hélt á," sagði Rotheram.

„Ég fór yfir girðinguna og þegar ég var að draga jakkann yfir fóru þessir þjófar með hendurnar í vasann. Það tók þá bókstaflega sekúndu, þetta voru atvinnumenn. Þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera og það var mikið af fólki sem týndi veskjum og símum.

„Ég labbaði að lögreglunni til að tilkynna hvað hafði gerst og einn þeirra sagði: 'Velkominn til Parísar!'. Lögreglan tók mér ekki alvarlega fyrr en tveir franskir strákar sem voru að hjálpa okkur með túlkun gúggluðu nafnið mitt og sýndu lögregluþjónunum. Um leið og þeir gerðu það þá reddaði lögreglan öðrum miða fyrir mig."

Rotheram fór á VIP-svæðið þar sem hann hitti Gianni Infantino, forseta FIFA, og Nicolas Sarkozy, fyrrum forseta Frakklands, og bað þá um að gera eitthvað í ástandinu. Infantino fann til með Rotheram og sagði að þetta væri ekki innan lögsögu FIFA á meðan Sarkozy var á hraðferð og gat ekki svarað.

Rotheram mætti næst Aleksander Ceferin, forseta UEFA.

„Ég kynnti mig kurteisislega fyrir honum, útskýrði hvað hafði komið fyrir og lýsti áhyggjunum sem vöknuðu eftir þessa upplifun. Hann fór í vörn og svaraði að UEFA hefði einungis haft þrjá mánuði til að skipuleggja úrslitaleikinn og það hafi kostað mikið af blóði, svita og tárum. 

„Ég svaraði þá að ég hefði meiri áhyggjur af því að það deyi enginn fyrir utan leikvanginn og hann benti mér þá á að ég væri að sýna óvirðingu. 

„Ég hafði það ekki í mér að fá mér sæti og horfa á leikinn, mér leið ömurlega yfir ástandinu og var smeykur um að eitthvað hrikalegt gæti gerst fyrir utan leikvanginn."

Rotheram var meðal áhorfenda þegar Hillsborough slysið átti sér stað 1989 og sagðist hafa hugsað mikið til þess meðan hann var í París.

Kevin Cowley, fyrrum lögregluþjónn, var einnig mættur á Stade de France til að horfa á úrslitaleikinn og lenti hann í miklum troðningi á leið sinni á leikvanginn.

Hann var einnig viðstaddur þegar Hillsborough slysið átti sér stað og segir að gangan að leikvanginum hafi minnt hann óneitanlega mikið á Hillsborough.

„Ég er í molum, þetta var eins og stríðssvæði. Mér leið eins og Hillsborough væri að gerast aftur," sagði Cowley meðal annars.


Athugasemdir
banner
banner
banner