mán 02. júlí 2018 14:54
Elvar Geir Magnússon
Markverðir komnir af línunni í 15 af 19 vítum
Danijel Subasic var duglegur að fara af línunni.
Danijel Subasic var duglegur að fara af línunni.
Mynd: Getty Images
Er þetta sú regla sem menn komast oftast upp með að brjóta í fótboltanum? Í báðum vítaspyrnukeppnunum á HM í gær voru markverðirnir oftar en ekki komnir af línunni þegar spyrnurnar voru framkvæmdar.

Igor Akinfeev hjá Rússlandi, Kasper Schmeichel hjá Danmörku og Danijel Subasic hjá Króatíu voru allir sekir um að stíga af línunni áður en sparkað hafði verið í boltann. David de Gea hjá Spáni var sá eini sem hélt sér á línunni, fyrir utan eina spyrnu.

Reglur FIFA segja greinilega að þetta sé ólöglegt. Þrátt fyrir notkun á VAR og að dómararnir standi rétt hjá markinu fengu markverðirnir að „leika lausum hala".

Í 14. grein laga FIFA segir að markvörðurinn sem sé til varnar verði að halda sér á línunni þar til búið er að sparka í knöttinn.

Í 15 af 19 vítaspyrnum gærdagsins var markvörðurinn kominn af línunni áður en spyrnt hafði verið í boltann.

Subasic og Schmeichel vörðu mest af markvörðunum í gær en Króatinn varð aðeins annar markvörðurinn í sögu HM til að verja þrjár vítaspyrnur í vítaspyrnukeppni.

Að fara fyrr af línunni hjálpar markverðinum klárlega þar sem það minnkar plássið til að skjóta á og þrengir skotfærið.

„Margir eru á því að fyrst sumir íþróttamenn taki ólögleg lyf til að ná forskoti á Ólympíuleikum eigi að leyfa öllum að taka lyf. FIFA virðist aðhyllast sömu hugmyndafræði þegar kemur að markvörðum og vítaspyrnum," segir Graham Poll, fyrrum dómari.

„Það er svo mörgum leyft að stökkva fram að reglunum er ekki framfylgt. Ég skil ekki af hverju þetta er svona flókið. Það á að taka eins á þessu og öðrum reglum í leiknum."
Athugasemdir
banner
banner
banner