banner
   mán 02. júlí 2018 13:23
Elvar Geir Magnússon
Mikil reiði í spænskum fjölmiðlum
Forsíða Marca.
Forsíða Marca.
Mynd: Marca
Heimska, vanræksla og þörf á endurnýjun. Þessi orð eru notuð af spænskum fjölmiðlum sem eru reiðir eftir tap spænska landsliðsins gegn Rússum í 16-liða úrslitum HM.

Fjallað er um brottrekstur Julen Lopetegui rétt fyrir mót, rangt liðsval Fernando Hierro og að liðið sé gamalt. Fjölmiðlar kenna mörgum þáttum um það hvernig fór.

Fyrirsögnin á forsíðu Marca er einföld og köld: „Á heimleið" og sagt að það hafi verið barnalegt að halda að brottrekstur þjálfarans myndi ekki hafa neinar afleiðingar.

Lopetegui var rekinn fyrir það með hvaða hætti hann var í viðræðum við Real Madrid og var svo kynntur sem þjálfari liðsins fyrir mót.

„Liðið vann aðeins einn leik og frammistaðan var léleg á lykilstundum. Að skella skuldinni á lélega frammistöðu í vítaspyrnukeppni er of mikil einföldun og ódýr afsökun. Rétt eins og það er að skella skuldinni alfarið á Fernando Hierro," segir í umfjöllun Marca.

El Mundo segir að Hierro hafi verið hugmyndalaus og liðið hafi skort allan hreyfanleika í sóknarleiknum. El Pais segir að spænska liðið hafi verið byrjað að hrynja áður en flautað hafi verið til leiks í Rússlandi og niðurstaðan í raun fyrirsjáanleg.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner