þri 02. júlí 2019 19:30
Brynjar Ingi Erluson
Cocu að taka við Derby County
Philippe Cocu er á leið til Englands
Philippe Cocu er á leið til Englands
Mynd: Getty Images
Hollenskir fjölmiðlar fullyrða það í dag að Philippe Cocu taki við enska B-deildarliðinu Derby County.

Frank Lampard hefur stýrt Derby County síðasta árið en hann gerði frábæra hluti með Derby og kom liðinu í úrslitaleik um sæti í ensku úrvalsdeildinni en liðið tapaði þar fyrir Aston Villa.

Lampard er að ljúka viðræðum við Chelsea um að taka við liðinu en félagið hefur verið án stjóra í tvær vikur eða síðan Maurizio Sarri fór frá Chelsea og tók við Juventus.

Það hefur verið ágætis þjálfarakapall í gangi en Derby County hefur verið í leit að stjóra og er þegar með mann kláran. Philippe Cocu, fyrrum stjóri PSV Eindhoven og Fenerbahce, mun taka við liðinu.

Twan Scheepers, sem hefur verið aðstoðarmaður Cocu síðustu ár, var í skoðunarferð á æfingasvæði Derby á dögunum og fullyrða hollensku miðlarnir að Cocu taki við Derby.

Það má búast við tilkynningu frá Derby um leið og Lampard verður staðfestur hjá Chelsea.
Athugasemdir
banner
banner