fim 02. september 2021 18:31
Brynjar Ingi Erluson
Arnar Gunnlaugs: Búinn að vera í ákveðnu sorgarferli
Icelandair
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings R, segir það afar dapurlegt að fylgjast með umræðu síðustu daga um íslenska landsliðið og KSÍ en hann er sérfræðingur á RÚV fyrir leikinn gegn Rúmeníu í kvöld.

Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ á dögunum eftir umræðu síðustu daga. Þórhildur Gyða Arnarsdóttir sagði frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem hún varð fyrir af hálfu Kolbeins Sigþórssonar.

Stjórn KSÍ hefur einnig ákveðið að segja af sér en það hefur verið boðað til aukaþings á næstu vikum. Fleiri sögur af meintum gerendum úr landsliðinu hafa komið fram á yfirborðið og ljóst að það er mikil þörf á að hreinsa til í því eitraða umhverfi í kringum knattspyrnuhreyfinguna.

Arnar ræddi við Einar Örn Jónsson ásamt Margréti Láru Viðarsdóttur á RÚV.

„Það er búið að vera mjög dapurlegt að fylgjast með þessari umræðu og maður er búinn að vera í ákveðnu sorgarferli. Maður er náttúrlega hluti af þessari knattspyrnuhreyfingu og búið að vera mitt ær og kýr síðan ég fæddist. Þetta er bara dapurlegt."

„Ég er bjartsýnnismaður að eðlisfari og nú þurfum við að draga lærdóm af þessari reynslu og fara í fræðslu, fræðslu og fræðslu og kenna stjórnendum og þjálfurum og leikmönnum og skilaboðin eru skýr. Ofbeldi er ekki liðið í okkar knattspyrnuheimi og við höfum tækifæri á að vera góðar fyrirmyndar og láta gott af okkur leiða."

„Mér finnst virðingavert fyrir stjórnina og Guðna að stíga til hliðar. Þetta hefur verið erfitt og þetta er toppfólk sem hefur unnið í mörg ár með engin laun fyrir í sjálfboðavinnu. Mér finnst virðingavert að þau hafi stíga til hliðar og hleypt nýju fólki að sem mun taka á þessum málum,"
sagði Arnar á RÚV.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner