banner
   fim 02. september 2021 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Moriba: Barcelona dreifði lygasögum um mig
Ilaix Moriba er kominn til Leipzig
Ilaix Moriba er kominn til Leipzig
Mynd: Heimasíða Leipzig
Spænski táningurinn Ilaix Moriba gerði fjögurra ára samning við þýska félagið RB Leipzig undir lok gluggans en hann kom frá Barcelona. Hann er óánægður með lygarnar sem hafa verið sagðar um hann síðustu mánuði.

Leipzig keypti Moriba á 16 milljónir evra frá Barcelona. Slæmar ákvarðanir í rekstri Barcelona hefur orðið til þess að félagið hefur þurft að losa sig við leikmenn.

Moriba var einn af þeim sem ákvað að fara. Hann kom inn í aðallið Barcelona fyrir síðustu leiktíð og spilaði 18 leiki.

Hann er aðeins 18 ára gamall en er nú mættur til Þýskalands.

„Síðustu mánuðir hafa verið þeir erfiðustu í mínu lífi. Ég og fjölskylda mín höfum mátt þola mikið áreiti en við náðum að komast yfir það og koma hingað til Þýskalands," sagði Moriba.

„Ég átti þetta ekki skilið. Fólkið hjá Barcelona hefur sagt sögur sem eru ekki sannar á meðan við höfum ekki sagt neitt því við berum mikla virðingu fyrir Barcelona."

„Það er ekki sanngjarnt það sem félagið hefur sagt fjölmiðlum,"
sagði Moriba ennfremur en stjórnarmenn Barcelona héldu því fram að Moriba hafi farið fram á sölu.

Hann er nú sáttur og kominn til Leipzig en þetta er einn efnilegasti miðjumaður Evrópu um þessar mundir og verður spennandi að fylgjast með honum í þýska boltanum næstu árin.
Athugasemdir
banner
banner
banner