banner
   fim 02. september 2021 09:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segja að meint heimilisofbeldi Ragnars hafi verið þaggað niður
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fréttablaðið fjallar um það að Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Fylkis, hafi gengið „ber­serks­gang, brotið allt og bramlað" og haft í hótunum við þáverandi eiginkonu sína nóttina eftir að þjóðin hafði fagnað frábærum árangri Íslands á Evrópumótinu.

Ragnar var einn af máttarstólpum Íslands á EM og skoraði meðal annars í sigrinum eftirminnilega gegn Englandi.

Fram kemur í grein Fréttablaðsins að lögregla hafi verið kölluð til að heimili í Garðabæ 5. júlí 2016, en þegar lögregla kom á staðinn var Ragnar hvergi sjáanlegur.

Miðillinn greinir frá því að Ragnar hafi verið boðaður í skýrslutöku nokkrum dögum seinna og mætti hann í hana ásamt lögmanni. Hann neitaði að hafa beitt þáverandi eiginkonu sína ofbeldi og að hafa sýnt ógnandi hegðun.

Ofbeldismál íslenskra landsliðsmanna hafa verið mikið í umræðunni síðustu daga eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram í fréttatíma RÚV á föstudagskvöld og sagði þar frá ofbeldi og kynferðislegri áreitni af hálfu landsliðsmanns sem faðir hennar tilkynnti til KSÍ.

Guðni Bergsson, fyrrum formaður KSÍ, sagði í viðtali við Kastljós á fimmtudag að engar tilkynningar eða ábendingar hefðu borist frá því hann tók við formennsku en greindi svo frá því í fréttatímanum á föstudag að hann hafi farið með rangt mál. Hann lét af störfum á sunnudag eftir mikil fundarhöld.

Stjórn KSÍ sagði svo af sér og framkvæmdastjórinn, Klara Bjartmarz, er komin í leyfi.

Fram kemur hjá Fréttablaðinu að málið hafi verið fellt niður þrátt fyrir skýrslu frá fyrrum eiginkonu Ragnars, ástand íbúðarinnar - sem var víst mjög slæmt - og símtal nágranna við neyðarlínuna. Nágrannar áttu að hafa haft samband við KSÍ og tilkynnt um meint heimilisofbeldi Ragnars en heimildir Fréttablaðsins herma að málið hafi verið þaggað niður.

Þess ber að taka fram að Guðni Bergs var ekki formaður KSÍ 2016, hann tók við formannsstólnum 2017. Forveri hans var Geir Þorsteinsson.

Hægt er að lesa grein Fréttablaðsins í heild sinni hérna
Athugasemdir
banner
banner
banner