Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 02. september 2022 09:15
Fótbolti.net
Heimild: Mirror 
Gluggadómar - Arsenal og Man City áttu besta sumargluggann
Gabriel Jesus fer vel af stað hjá Arsenal.
Gabriel Jesus fer vel af stað hjá Arsenal.
Mynd: Getty Images
Wesley Fofana fór til Chelsea.
Wesley Fofana fór til Chelsea.
Mynd: Chelsea
Richarlison yfirgaf Everton og fór til Tottenham.
Richarlison yfirgaf Everton og fór til Tottenham.
Mynd: EPA
Man City keypti Kalvin Phillips frá Leeds.
Man City keypti Kalvin Phillips frá Leeds.
Mynd: Getty Images
Darwin Nunez kom til Liverpool.
Darwin Nunez kom til Liverpool.
Mynd: Getty Images
Erling Haaland raðar inn mörkum.
Erling Haaland raðar inn mörkum.
Mynd: Getty Images
Alexander Isak .
Alexander Isak .
Mynd: Newcastle
Félögin í ensku úrvalsdeildinni eyddu samtals meira í sumarglugganum en félög La Liga, ítölsku A-deildarinnar og þýsku Bundesligunnar samanlagt!

Íþróttafréttamenn Mirror lögðu dóm sinn á hvernig sumarglugginn gekk hjá ensku úrvalsdeildarfélögunum 20. Gefnar eru einkunnir frá A til F.

Arsenal: A-
Arsenal var tímanlega í sínum leikmannakaupum og hafði eytt yfir 100 milljónum punda áður en fyrsta umferðin fór af stað. Gabriel Jesus og Oleksandr Zinchenko smellpassa í liðið en eina spurningamerkið er hvort breiddin sé nægilega mikil.

Aston Villa: C+
Glugginn fór ágætlega af stað en svo fór að halla undan fæti. Philippe Coutinho er ekki að sýna það sama og hann sýndi þegar hann kom fyrst á láni og meiðsli Diego Carlos voru félaginu áfall.

Bournemouth: D-
Scott Parker talaði hreint út þegar hann tjáði sig um gæðaleysið í leikmannahópi sínum og var rekinn. Bournemouth virðist Championship lið í úrvalsdeildinni.

Brentford: B
Það voru vonbrigði að missa af Christian Eriksen en varnarmaðurinn reynslumikli Ben Mee kom frá Burnley og þá voru fengnir ungir og spennandi leikmenn.

Brighton: B-
Í gegnum tíðina hafa bestu leikmannakaup Brighton ekki slegið strax í gegn. Framþróun Moises Caicedo gerir það að verkum að missirinn af Yves Bissouma er ekki eins mikill og menn óttuðust. Pervis Estupinan var fenginn í stað Marc Cucurella. Fram á við er mesta óvissan.

Chelsea: B
Það var ljóst að það yrði verk að vinna fyrir Chelsea í glugganum og félagið eyddi hærri upphæð en nokkuð annað enskt félag hefur gert í einum glugga. Efasemdir eru hjá mörgum varðandi Pierre-Emerick Aubameyang og Denis Zakaria en varnarmennirnir Marc Cucurella og Wesley Fofana ættu að stuðla að betri úrslitum.

Crystal Palace: C+
Lykilatriðið var að halda Wilfried Zaha en annars var glugginn rólegur hjá Palace. Reynsluboltar fóru svo ungir leikmenn fá meiri spiltíma og reynslu. En mun það duga?

Everton: B-
Richarlison, sem átti stóran þátt í að halda liðinu í deildinni, fór til Tottenham. Frank Lampard hefur fengið inn Amadou Onana, Neal Maupay, Idrissa Gueye og James Garner.

Fulham: B
Liðið virðist hafa verið með skynsamlegri nálgun en oft áður. Joao Palhinha kom snemma í glugganum og markvörðurinn Bernd Leno kom á afsláttarverði. Layvin Kurzawa og Willian auka breiddina og Dan James kom á láni. Það var þó missir í Fabio Carvalho sem fór til Liverpool.

Leeds: B
Þetta var erfiður gluggi fyrir Leeds eftir að Raphinha og Kalvin Phillips fóru. Eitthvað sem virtist óumflýjanlegt og þeir skilja eftir sig stór skörð. Það er alltaf áhætta að sækja leikmenn erlendis frá en Jesse Marsch virðist hafa veðjað á réttu leikmennina í Brenden Aaronson og Luis Sinisterra. Þá hefur hann náð að halda kjarna liðsins.

Leicester City: D+
Sótti Wout Faes á Gluggadeginum til að koma í stað Wesley Fofana sem fór til Chelsea. Skarð Fofana verður erfitt að leysa og einnig markvarðarins og leiðtogans Kasper Schmeichel. Það eru vandamál hjá Leicester sem er að reyna að rétta við bókhaldið og hefur lítið gert í glugganum. Það var þó jákvætt að halda Youri Tielemans.

Liverpool: B
Liverpool var með skýrar áætlanir í glugganum, áætlanir sem þurfti svo að breyta á Gluggadeginum vegna meiðslavandræða. Arthur Melo var þá sóttur. Áður komu Darwin Nunez, Fabio Carvalho og Calvin Ramsay. Það er hægara sagt en gert að fylla í skarð Sadio Mane sem fór til Bayern en hrikalega mikilvægt að hafa gert nýjan samning við Mohamed Salah.

Manchester City: A
Erling Haaland virðist hafa verið síðasta púslið sem vantaði. Er hann lykillinn að sigri í Meistaradeildinni? Fleiri leikmenn hafa verið keyptir af fagmennsku og yfirvegun; Manuel Akanji, Stefan Ortega, Sergio Gomez og Kalvin Phillips. Fernandinho og Raheem Sterling hefur ekki verið saknað í upphafi móts og það var öflugt að halda Bernardo Silva.

Manchester United: B+
Hæg byrjun á sumarglugganum pirraði stuðningsmenn. En á endanum setti United félagsmet í innkaupum í sumarglugga. Ekki tókst að landa Frenkie de Jong en Casemiro var keyptur. Margir telja að Lisandro Martínez og Antony hafi verið keyptir fyrir of mikinn pening en sú umræða verður fljót að hverfa ef þeir standa sig. Paul Pogba og fleiri eru farnir og endurnýjunin á leikmannahópnum farin á fulla ferð.

Newcastle United: B+
Ekki sömu læti í kringum Newcastle í glugganum og margir bjuggust við. En Alexander Isak var gerður að dýrasta leikmanni félagsins og þeir Nick Pope og Sven Botman eru öflug styrking. Ofan á það var lykilatriði að halda Allan Saint-Maximin.

Nottingham Forest: Dómur kveðinn upp í janúar
Hvernig á að vera hægt að dæma glugga þegar 20 nýir leikmenn eru fengnir? Forest þurfti klárlega að styrkja sig og nokkrir af þeim sem hafa komið inn hafa þegar sýnt hvað í þeim býr. Dómur verður kveðinn upp eftir nokkra mánuði.

Southampton: B
Dýrlingarnir hafa sýnt klókindi á markaðnum. Romeo Lavia og Gavin Bazunu komu frá Manchester City og Joe Aribo frá Rangers svo einhverjir séu nefndir. Ofan á það var algjört lykilatriði að halda hinu sparkvissa James Ward-Prowse.

Tottenham Hotspur: B+
Eins og búist var við þá hefur Antonio Conte haft í nægu að snúast á markaðnum. Hann endurnýjaði kynni við Ivan Perisic og fékk leikmenn á borð við Richarlison og Yves Bissouma.

West Ham United: B+
Aðalmálið var að halda Declan Rice og það tókst. Lucas Paqueta og Gianluca Scamacca koma með ferska vinda.

Wolverhampton Wanderers: B-
Tíminn mun leiða í ljós hvort áhrifa Conor Coady, Romain Saiss og Willy Boly verði saknað. Nathan Collins, Goncalo Guedes, Matheus Nunes, Boubacar Traore og Sasa Kalajdzic voru fengnir.
Athugasemdir
banner
banner